Sigríður Á. Andersen héraðsdómslögmaður var kjörinn formaður Spænsk-íslenska viðskiptaráðsins á aðalfundi félagsins sem haldinn var nýlega. Tók hún við af Úlfari Steindórssyni sem verið hafði formaður síðastliðin 4 ár. Í fyrsta sinn í sögu millilandaráða er kona kjörin formaður.

Í frétt frá ráðinu kemur fram að Spænsk-íslenska viðskiptaráðið var stofnað í Barcelona árið 1997 og er eitt átta millilandaráða Viðskiptaráðs Íslands. Félagar í ráðinu eru íslenskir og spænskir lögaðilar og einstaklingar sem eiga í hvers kyns viðskiptum milli landanna tveggja. Tilgangur ráðsins er að vaka yfir viðskiptahagsmunum félaga sinna og vera málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum í báðum löndum.

Viðskipti milli Íslands og Spánar hafa verið stöðug síðustu ár. Spánn er fimmti stærsti kaupandi íslensk útflutnings. Útflutningsverðmæti til Spánar er nú um 15,5 milljarðar króna á ári. Verðmæti út- og innflutnings hefur aukist jafnt og þétt en sem hlutfall af heildarútflutningi hefur útflutningur til Spánar aukist nokkuð. Vöruskiptajöfnuðurinn hefur jafnan verið Íslendingum hagstæður.

Spænsk-íslenska viðskiptaráðið hefur að markmiði að efla og auðvelda viðskipti milli landanna, bæði með tilliti til verðmætis og aukinna viðskiptatækifæra á fjölbreyttum sviðum.

Aðrir stjórnarmenn ráðsins eru þau Joaquín Armesto (Íslenska umboðssalan), Þorvarður Guðlaugsson ( Icelandair) , Edda Björnsdóttir (Karl. K. Karlsson) og Ásbjörn Björnsson ( Iceland Seafood) á Íslandi og þau Mario Rotllant Sola ( Copesco & Sefrisa S. A.), Hildur Eir Jónsdóttir ( Ernst & Young) og Karl Hjálmarsson ( Rok Marketing) og Axel Net (Microblau) á Spáni.

Framkvæmdastjóri ráðsins er Kristín S. Hjálmtýsdóttir.