Sigurður Óli Ólafsson, framkvæmdastjóri Actavis í Bandaríkjunum, mun nú einnig gegna stöðu aðstoðarforstjóra félagsins frá 1.desember 2006, segir í tilkynningu.

Svafa Grönfeldt, aðstoðarforstjóri Actavis Group, mun láta af störfum hjá félaginu í desember 2006 en hún hefur verið ráðin rektor Háskólans í Reykjavík. Hún mun áfram sinna ákveðnum sérverkefnum fyrir Actavis á næstu mánuðum.

Sigurður Óli kom til starfa hjá Actavis árið 2003 eftir að hafa starfað hjá Pfizer í Bretlandi frá 1998 og síðar Pfizer í Bandaríkjunum 2001-2003. Áður en Sigurður hóf störf hjá Pfizer var hann markaðsstjóri og síðar lyfjaþróunarstjóri hjá Omega Farma (nú Actavis). Sigurður er fæddur árið 1968 og er lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands.