Tæknifyrirtækið Stiki ehf. hefur nýverið stofnað dótturfyrirtækið Stiki Ltd. í Bretlandi til að styðja við útflutning fyrirtækisins á þann markað, segir í fréttatilkynningu. Í kjölfarið hefur verið bætt við fólki í ráðgjöf og hugbúnaðarþróun hér á landi.

Svavar Ingi Hermannsson, tölvunarfræðingur hefur hafið störf hjá Stika. Svavar Ingi er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá HÍ, er að ljúka diplóma-námi í mannauðsstjórnun frá Endurmenntun HÍ í vetur. Svavar hlaut MCP viðurkenningu árið 2000 og Solaris 9 Certified System Administrator gráðu árið 2005. Svavar Ingi er jafnframt stundakennari í tölvunarfræði við HÍ. Svavar Ingi starfaði áður hjá Anza og þar á undan hjá Friðriki Skúlasyni ehf. Svavar Ingi mun starfa við ráðgjöf og hugbúnaðarþróun hjá Stika.

Sigurpáll Ingibergsson hefur verið ráðinn sem ráðgjafi í upplýsingatækni. Sigurpáll er með B.Sc. próf í tölvunarfræði frá H.Í. Sigurpáll er einnig með MCP viðurkenningu frá Microsoft. Hann hefur undanfarið unnið hjá gagnaflutningsdeild Símans en þar á undan hjá Skímu. Sigurpáll mun sinna ráðgjöf á sviði upplýsingaöryggis og upplýsingatækni hjá Stika.

Valdimar Kristjánsson hefur verið ráðinn í hugbúnaðarþróun Stika. Valdimar er kerfisfræðingur frá NTV. Valdimar starfaði áður sem tæknistjóri ELEA Network og sem útsendingastjóri Skjás Eins. Valdimar mun vinna í hugbúnaðarþróun í Delphi fyrir lausnir Stika á heilbrigðissviði.

Bas Mjnen hefur hafið störf hjá Stika. Bas er með M.Sc. í stærðfræði frá Radboud Háskólanum í Nijmegen í Hollandi. Viðfangsefni hans voru á sviði aðgerðargreiningar, tölfræði og stærðfræðilegrar hagfræði. Bas hefur langa reynslu af kerfisgerð og forritun meðal annars í útfærslu flókinna algríma í sambandi við staðsetningar í landupplýsingakerfum (GIS). Bas vann áður hjá ORTEC BV. Dep. Systems development. Bas mun vinna sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Stika.