Mikil íbúðauppbygging er framundan hjá sveitarfélaginu Árborg. Samkvæmt áformum einkaaðila í Árborg um byggingu íbúða yrði íbúafjölgunin um 15% á þessu ári. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins gerir ráð fyrir um 8% fjölgun á árinu. Ef allt gengur eftir gæti íbúum fjölgað um sex þúsund manns á næstu 4-5 árum, en í dag búa í sveitarfélaginu tæplega 11 þúsund manns.

„Það eru 500-600 íbúðir væntanlegar til afhendingar á þessu ári. Landeigendur á þremur jörðum í kringum Selfoss hafa heimild til að framkvæma gatnagerð og eru í íbúðauppbyggingu á jörðunum," segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg. „Í fyrsta lagi er það Árbakkahverfi við Ölfusá og norðan við Selfoss. Í öðru lagi er uppbygging í gangi í Jórvík, suður af Selfossi. Í þriðja lagi er Hannes á Dísarstöðum að byggja á austanverðum Selfossi, en hann hefur árum saman skilað frá sér um 80-100 íbúðum á hverju ári," segir Gísli.

Hann segir að uppbyggingin í þessum löndum hafi tafist síðastliðin tvö ár, sérstaklega í Jórvík og á Árbakka. „Spár gerðu ráð fyrir 7% ársfjölgun íbúa á árunum 2020-2021, en vegna tafa á uppbyggingunni varð fjölgunin heldur minni, eða um 4%."

Tækifæri á mörgum sviðum

Gísli segir marga þætti spila saman sem muni styðja undir fólksfjölgun í Árborg á næstu árum. Hann bendir á að nýi miðbærinn, sem reis síðastliðið sumar, muni stækka á næstu árum og þrefaldast eða fjórfaldast. Hann segir að viðtökurnar hafi verið framar vonum. „Veltan varð miklu meiri en rekstraraðilar þoruðu að vonast eftir. Samt hefur einungis þriðjungur eða fjórðungur risið þarna. Því hefur þetta gengið langt fram úr okkar björtustu vonum. Með byggingu nýs miðbæjar er Selfoss komið með sterka ímynd meðal landsmanna."

Enn fremur sér Gísli möguleika á mörgum sviðum í Árborg til að skapa enn betra sveitarfélag. „Ég tel að það séu miklir möguleikar fólgnir á Stokkseyri og Eyrarbakka í tengslum við ferðaþjónustu, þar sem Suðurstrandarvegur myndar tengingu við Keflavíkurflugvöll. Höfnin við Þorlákshöfn styður síðan enn frekar við atvinnuuppbyggingu í Árborg."

Þess til viðbótar segir hann annað tækifæri liggja í Austurvegi og Eyrarvegi, vegunum sem liggja í gegnum Selfoss. „Það eru tækifæri að byggja upp glæsilegt breiðstræti á þessum vegum, með verslun og þjónustu. Það er mikil þjónusta við göturnar og þetta eru ásar í gegnum bæinn, með miðbæinn sem miðpunkt. Allt þetta spilar saman til að gefa okkur gullið tækifæri til að byggja upp góða borg."

Miklar hækkanir á fasteignamarkaði

Mikil hækkun hefur verið á fasteignaverði á Íslandi að undanförnu. Samkvæmt athugun Hagfræðideildar Landsbankans, frá því í nóvember í fyrra, var mesta hækkunin í Árborg af öllum þéttbýliskjörnum umhverfis höfuðborgarsvæðið ef horft er til þróunar íbúðaverðs frá árinu 2015.

„Fólk hélt að með framleiðslu íbúðarhúsnæðis væri hægt að halda verðbilinu gangandi, á milli Árborgar og Reykjavíkur." Hann segir bilið hins vegar sífellt minnkandi. „Munurinn er að detta niður í 10% og er jafnvel talað um að verðbilið sé að hverfa. Vissulega hefur mikið verið byggt af hagkvæmum íbúðum og þannig hefur söluverði nýrra eigna verið haldið niðri að einhverju leyti. En eftirspurnin er einfaldlega orðin svo mikil að fasteignaverð hefur hækkað í samræmi við það."

Hann bendir á að framboðið sé allt of lítið í Reykjavík og öðrum þéttbýliskjörnum. „Það virðist vera nokkuð augljóst, og mér sýnist allir vera sammála því, að eftirspurnin er alveg botnlaus. Framboðið er svo lítið í Reykjavík og annars staðar að það er mun meiri eftirspurn í Árborg og allt sem er framleitt verður selt."

Nánar er fjallað um íbúðauppbygginguna í Árborg í fylgiritinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .