Á þriðjudaginn varði Vishnu M. Ramachandran Girija doktorsritgerð sína við viðskiptadeild HR. Hann fjallaði í rannsóknum sínum um greiningu á atferli neytenda og rafræna markaðssetningu á samfélagsmiðlum og hefur m.a. verið að nota augnskanna til að greina hvort og hvernig fólk horfir á auglýsingar á Facebook.

„Rannsókn mín byggir í raun á þremur hlutum, kenningum um neytendahegðun, hegðunarsálfræði og stafrænni markaðssetningu. Ég hef verið að beita hegðunarsálfræði til að skilja betur hegðun neytenda á netinu,“ segir Vishnu í samtali við Viðskiptablaðið.

Smásala á íslenskum vefsíðum hefur verið mjög lítil þó að Íslendingar versli mikið á erlendum vefsíðum. Vishnu rannsakaði fatatískumarkaðinn sem hefur fyrst og fremst farið fram í raunheimum, en íslensk fyrirtæki hafa mörg verið að prófa sig áfram, byrjað að kynna vöru og auglýst á samskiptamiðlum sem leiðir svo til alvöru vefsölu.

Framsetningin skiptir máli Rannsóknir Vishnu tóku meðal annars á markaðssetningu á samfélagsmiðlum hjá skó- og fataversluninni Maníu á Laugaveginum. Tölfræði var notuð til að spyrja neytendur hvaða þættir hefðu mest áhrif og mælingar með augnskanna voru notaðar til að sjá hvað stjórnaði athygli fólks á svona vörum. Hluti af hagnýtingu fjallaði um að breyta samfélagsmiðlum frá kynningarsíðum yfir í sölusíðu.