Yfirdrifið er af fólki í stjórnmálum án nokkurrar reynslu og verksviti en heldur að það sé svo gáfað að það spræni gáfum. „ Þegar það sprænir rennur hins vegar ekkert og það skilar engu,“ skrifar Árni Johnsens, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann skrifar grein í Morgunblaðið í dag til stuðnings Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins undir fyrirsögninni Bjarni Benediktsson er hæfastur til að rífa Ísland upp til árangurs.

Í sömu grein sakar Árni þá sem lentu í þremur efstu sætunum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um að hafa rottað sig saman gegn sér. Árni var í 2. sæti á lista flokksins en stefndi á það fyrsta. Hann lenti hins vegar í sjöunda sæti.

Árni segir í skugga fylgishruns flokksins í skoðanakönnunum Bjarna hafa setið undir afar neikvæðri umfjöllun. Það eigi hann ekki skilið. Þá segir Árni Bjarna ekki hafa verið nógu laginn að ná eyrum fólks um mál sem mest á brenni. Ástæða þess er sú, að mati Árna, að Bjarni er varfærinn og smjaðrar ekki. Flokkurinn mældist með 22,4% fylgi í Þjóðarpúlsi Gallup á þriðjudag.

Nóg komið af slúðri

Árni skrifar:

„Bjarni er af athafnamönnum, fór sjálfur í viðskipti en vildi vinna fyrir land og þjóð og vék úr þeim  sjálfviljugur án áfalla. Annað er slúður. Þegar stórhrun dynur yfir hálfan heim og allt fer úr böndum í öllum rekstri heimila og fyrirtækja og allar forsendur hrynja er út úr kortinu að kenna einum einstaklingi um af því að það hentar pólitískt. Hvílík smæð. Hættum þeirri firringu að taka af lífi án dóms og laga, ala á slúðri og lágkúru. Horfum hærra. Aðalatriðið er að lifa af. Sem stjórnmálamaður situr Bjarni uppi með tvö atriði sem „vandamál“, svokallaðar „syndir feðranna“ í viðskiptum þótt flest sé það orðum aukið og  óklárt og án hans ábyrgðar.“