*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Frjáls verslun 1. mars 2019 12:25

Fólk á uppleið II

Frjáls verslun birtir lista yfir tæplega 60 Íslendinga, sem eru á uppleið í atvinnulífinu í nýju tímariti sem var að koma út.

Ritstjórn
vb.is

Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út í gær, er ljósi varpað á tæplega sextíu Íslendinga, sem hafa verið á uppleið í atvinnulífinu undanfarin misseri. Lögð er áhersla á yngra fólk og til marks um það er meðalaldurinn rétt rúmlega 37 ár. Á listanum eru 29 konur og 27 karlar. Í hópnum er fólk sem starfar í hinum ýmsu atvinnugreinum þjóðfélagsins eins og ferðaþjónustu, viðskiptalífi, verslun, byggingageiranum, sem og fólk sem hefur gert það gott í nýsköpun.

Frjáls verslun fékk valinkunnan hóp sérfræðinga til að tilnefna fólk á listann en þau eru: Andrés Jónsson, almannatengill og eigandi Góðra samskipta, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, ráðgjafi hjá Aton, Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunar í Arion banka og einn af upphafsmönnum Startup Reykjavík, Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og einn eigenda KOM, Heiðar Guðjónsson fjárfestir, Katrín S. Óladóttir, annar eigenda Hagvangs og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).

Fólkinu á listanum er raðað eftir starfrófsröð og hér fyrir neðan eru má sá þrjá sem eru á listanum.

Elísabet Grétarsdóttir (39)

  • Elísabet Grétarsdóttir hefur unnið hjá tölvuleikjarisanum EA Games síðan í upphafi árs 2015. Elísabet er með BS gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniháskólanum, og MS gráðu í markaðsfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi. Eftir útskrift vann hún lengi við markaðsmál hjá CCP, en tók við starfi markaðsstjóra Arion banka árið 2012. Hún fór svo yfir til DICE, dótturfyrirtækis EA Games, í ársbyrjun 2015. 

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir (37)

  • Eva Sóley Guðbjörnsdóttir tók nú nýlega við sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair Group og tók hún við starfinu af Boga Nils Bogasyni, sem var ráðinn forstjóri félagsins. Áður starfaði Eva Sóley sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Advania á Íslandi frá árinu 2015 og sem framkvæmdastjóri þjónustu- og rekstrarsviðs fyrirtækisins frá maí 2018. Fyrir tíma sinn hjá Advania starfaði hún sem forstöðumaður á fjármálasviði Össurar frá árinu 2014. Eva Sóley er með B.Sc. í hagverkfræði og hagfræði sem aukagrein og M.Sc. í fjármálaverkfræði frá Columbia University í New York. Þá hefur hún jafnframt lokið námi í verðbréfaviðskiptum.

Erna Björg Sverrisdóttir (28)

  • Erna Björg Sverrisdóttir er sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka. Erna útskrifaðist með BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og MS í hagfræðilegri stefnumótun frá Erasmus University Rotterdam 2015. Erna hóf fyrst störf sem gjaldkeri í sumarstarfi hjá Arion banka árið 2012, og fór til greiningardeildarinnar 2013, og hefur verið þar síðan, ef frá er talið stutt stopp í áhættustýringu Íbúðalánasjóðs haustið 2015. Erna heldur meðal annars utan um hagspá deildarinnar, auk þess að gera aðrar spár, taka þátt í skýrslugerð, og skrifa markaðspunkta. 

Nánar má lesa um „Fólk á uppleið" í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi hér.