*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Frjáls verslun 5. mars 2019 19:02

Fólk á uppleið V

Frjáls verslun birtir lista yfir tæplega 60 Íslendinga, sem eru á uppleið í atvinnulífinu í nýju tímariti sem var að koma út.

Ritstjórn
vb.is

Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út, er ljósi varpað á tæplega sextíu Íslendinga, sem hafa verið á uppleið í atvinnulífinu undanfarin misseri. Lögð er áhersla á yngra fólk og til marks um það er meðalaldurinn rétt rúmlega 37 ár. Á listanum eru 29 konur og 27 karlar. Í hópnum er fólk sem starfar í hinum ýmsu atvinnugreinum þjóðfélagsins eins og ferðaþjónustu, viðskiptalífi, verslun, byggingageiranum, sem og fólk sem hefur gert það gott í nýsköpun.

Frjáls verslun fékk valinkunnan hóp sérfræðinga til að tilnefna fólk á listann en þau eru: Andrés Jónsson, almannatengill og eigandi Góðra samskipta, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, ráðgjafi hjá Aton, Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunar í Arion banka og einn af upphafsmönnum Startup Reykjavík, Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og einn eigenda KOM, Heiðar Guðjónsson fjárfestir, Katrín S. Óladóttir, annar eigenda Hagvangs og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA ) .

Hér fyrir neðan má sjá brot af þeim einstaklingum sem eru á listanum.

Davíð Freyr Jónsson (37)

  • Davíð Freyr Jónsson er framkvæmdastjóri og stofnandi Aurora Seafood, sem er frumkvöðlafyrirtæki í nýtingu sæbjúgna. Einnig er hann hluthafi og útgerðarstjóri Royal Iceland sem sérhæfir sig í framleiðslu á framandi vörum í sjávarútvegi. Davíð Freyr lauk B.Sc. prófi í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri 2010 og stofnaði sama ár útgerðina Arctic Seafood, frumkvöðlafyrirtæki í krókaveiðum á makríl og nýtingu á ýmsum vannýttum tegundum úr sjó, félagið sameinaðist svo Royal Iceland hf. Árið 2017. Aurora Seafood stofnaði hann, ásamt tveim öðrum, árið 2015 en félagið hlaut árið 2017, 200 miljóna styrk frá Evrópusambandinu til að þróa vörur félagsins frekar.  

Salóme Guðmundsdóttir (35) 

  • Salóme Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Icelandic Startups. Hún tók við starfinu árið 2014 þegar nýsköpunarmiðstöðin starfaði undir heitinu Klak Innovit en nafninu var breytt í Icelandic Startups árið 2016. Áður, eða frá 2011 til 2014, starfaði Salóme sem forstöðumaður Opna háskólans í HR. Hún situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands, sem og Verbréfamiðstöðvar Íslands og Byggingarfélags námsmanna. Salóme er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykavík og diplómagráðu í markaðssamskiptum og vörumerkjastjórnun frá EHÍ.  

Sveinn Sölvason (40) 

  • Sveinn Sölvason er fjármálastjóri stoðtækjaframleiðandans Össurs. Sveinn er með meistaragráðu í fjármálum og endurskoðun frá Copenhagen Business School, og hefur meðal annars unnið hjá Marel í viðskiptaþróun, HSH-Nordbank, bandaríska fjárfestingabankanum Goldman Sachs, og fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings, en þar vann hann að ýmsum verkefnum fyrir Össur, og var í framhaldinu ráðinn þangað árið 2009. Sveinn var einnig í hópi bestu badmintonspilara landsins upp úr aldamótum, og hefur unnið Íslandsmeistaratitla í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik. 

Nánar má lesa um „Fólk á uppleið" í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi hér.