*

föstudagur, 18. október 2019
Frjáls verslun 28. febrúar 2019 11:37

Fólk á uppleið I

Frjáls verslun birtir lista yfir tæplega 60 Íslendinga, sem eru á uppleið í atvinnulífinu í nýju tímariti sem kom út í morgun.

Ritstjórn
vb.is

Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út í morgun, er ljósi varpað á tæplega sextíu Íslendinga, sem hafa verið á uppleið í atvinnulífinu undanfarin misseri. Lögð er áhersla á yngra fólk og til marks um það er meðalaldurinn rétt rúmlega 37 ár. Á listanum eru 29 konur og 27 karlar. Í hópnum er fólk sem starfar í hinum ýmsu atvinnugreinum þjóðfélagsins eins og ferðaþjónustu, viðskiptalífi, verslun, byggingageiranum, sem og fólk sem hefur gert það gott í nýsköpun.

Frjáls verslun fékk valinkunnan hóp sérfræðinga til að tilnefna fólk á listann en þau eru: Andrés Jónsson, almannatengill og eigandi Góðra samskipta, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, ráðgjafi hjá Aton, Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunar í Arion banka og einn af upphafsmönnum Startup Reykjavík, Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og einn eigenda KOM, Heiðar Guðjónsson fjárfestir, Katrín S. Óladóttir, annar eigenda Hagvangs og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA ) .

Fólkinu á listanum er raðað eftir starfrófsröð og hér fyrir neðan eru þeir þrír fyrstu.

Agnar Tómas Möller (39)

  • Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA Capital Management og annar af stofnendum fyrirtækisins, hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði frá árinu 2001 þegar hann hóf störf í greiningardeild Búnaðarbanka Íslands. Hann starfaði hjá Kaupþingi á árunum 2004-2008, fyrst í áhættustýringu og síðar í skuldabréfamiðlun. Samhliða starfi sínu hjá GAMMA hefur Agnar svo sinnt kennslu við Háskóla Íslands. Auk þess skrifar hann reglulega í innlend blöð og tímarit um efnahagsmál. Agnar er með B.Sc. og M.Sc. gráður í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Andri Heiðar Kristinsson (36)

  • Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Travelade, sem er nýsköpunarfyrirtæki í ferðaþjónustu, kláraði B.Sc. í rafmagns- og tölvuverkfræði í HÍ árið 2016, þar sem hann var jafnframt formaður Vöku, samtaka lýðræðissinnaðra stúdenta. Skömmu eftir útskrift stofnaði hann, ásamt tveimur öðrum, nýsköpunarhraðalinn Innovit, nú Iceland Startups, sem meðal annars heldur úti frumkvöðlakeppninni Gullegginu. Árið 2011 fór hann í MBA nám í Stanford háskóla í Kaliforníu, og 2013 hóf hann störf hjá samfélagsmiðlinum LinkedIn, í San Fransisco, áður en hann sneri heim 2016 til að stofna Travelade.

Ari Guðjónsson (30)

  • Ari Guðjónsson hefur gegnt stöðu yfirlögfræðings Icelandair Group frá því undir lok árs 2017, en hann tók við starfinu af Davíð Þorlákssyni. Ari hóf fyrst störf á lögfræðisviði Icelandair Group samhliða háskólanámi árið 2010. Hann hafði síðustu árin áður en hann tók við starfinu, starfað sem staðgengill yfirlögfræðings. Ari lauk LLM gráðu frá Columbia Law School árið 2017, en auk þess hefur hann lokið BA gráðu og meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann varð héraðsdómslögmaður árið 2015.

Nánar má lesa um „Fólk á uppleið" í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi hér.