Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn, gagnrýndi harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í tengslum við fyrirhuguð viðræðuslit við Evrópusambandið í þættinum Sunnudagsmorgun n með Gísla Marteini í dag. Benti hún á að mikilvægt væri að ná sáttum í umræðunni um Evrópumálin.

„Ég held að fólki, og ekki síst frjálslyndu fólki innnan Sjálfstæðisflokksins, hafi misboðið þessi aðferðafræði vegna þess að hún er ekki í takti við flokkinn okkar. Þetta var þyngra en tárum taki að hlusta á þetta í byrjun. En ég leyfi mér að segja að það hafi opnast ákveðið svigrúm eftir að Bjarni Benediktsson viðurkenndi eftir mjög erfiða viku í pólítík að við þurfum að læra af þessari viku.“

Þorgerður ítrekaði að hún hefði áhyggjur af því að gjá væri að myndast á milli íhaldssamra og frjálslyndra afla innan flokksins. „Stór hluti af okkur segir við viljum ekki leyfa harðlínunni að taka yfir. Við viljum ekki að svartstakkarnir í flokknum eigi hann frekar en ég og þú.“

Þorgerður var gestur Sunnudagsmorguns ásamt Katrínu Júlíusdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar og Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknarflokksins. Í viðtalinu vísaði hún í kosningaloforð Sjáflstæðisflokksins um að þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að vera um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. „Það er orðhengilsháttur að segja að þeir hafi ekki verið að svíkja loforð. Það er búið að svíkja það loforð ... Fólk vill ekki láta bullshitta með sig. Fólk vill ekki lengur þessa frekjupungapólitík."