„Þarna opnast tækifæri fyrir almenning sem móttekur upplýsingar í þúsundatali í hverjum mánuði, að spyrja spurninga eða bæta við upplýsingum sem það telur vanta,“ segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins ConfirmedNews og stofnandi upplýsingamiðilsins Spyr.is. Samnefnd vefsíða fyrirtækisins, Spyr.is , opnar á morgun, laugardag. Konur skipa stóran hluta í fyrirtækinu en ConfirmedNews er í eigu tólf kvenna.

Upplýsingamiðillinn Spyr er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum, að hennar sögn, en á vefsíðu fyrirtækisins gefst almenningi kostur á að kalla eftir ítarlegri upplýsingum í kjölfar frétta jafnt í blöðum og sjónvarpi. Spurningarnar geta beinst að þeim fyrirtækjum og stofnunum sem til umfjöllunar eru. Markmið Spyr er síðan að koma þessum spurningum fólks á framfæri og hvetja fyrirtæki og stofnanir til að fylgjast með og stuðla að gagnsæi og góðri upplýsingamiðlun.

Spyr móttekur aðeins fréttatengdar spurningar frá fólki og setur skilyrði um að spurningar séu skýrar og vel framsettar.

Rakel segir það eina sambærilega við merki Spyr sjónvarpsstöð bandaríska netmiðilssins Huffington Post. Þar birtist í útsendingu Twitter-færslur frá umræðum áhorfenda um fréttirnar á skjánum.

„Við förum skrefinu lengra enda teljum við að fólk vill ekki bara láta mata sig á fréttum heldur spyrja sjálft,“ segir Rakel og bendir á að næstu skref felist í því að kenna almenningi að nota Spyr. Væntingar eru síðan um að merki Spyr fylgi fréttum og geti almenningur smellt á það á netsíðum til að senda inn spurningar eða ítarlegri upplýsingar.

Guð blessi nýja framtíð

Rakel segir við hæfi að opna vefsíðu Spyr á morgun, 6. október. Hún segir það við hæfi enda verða þá liðin fjögur ár síðan Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað Guð að blessa þjóðina í skugga hruns viðskiptabankanna þriggja í beinni útsendingu í sjónvarpi.

„Við tengjum öll þennan dag við blessunina og og þannig verður hann skráður í sögubækur. En við viljum vera svolítið ákveðin í því að byggja upp og horfa á ný tækifæri. Þess vegna ákváðum við að velja hann sem daginn sem við horfum til framtíðar,“ segir Rakel.

Spyr.is