Lagt hefur verið fram á Alþingi nýtt frumvarpi til laga um fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Verði það að lögum verður umboðsmanni skuldara veitt heimild til greiðslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga vegna skiptakostnaðar á búi einstaklinga við gjaldþrotaskipti. Algengast er að dómarar ákveði 250 þúsund króna lágmarkstryggingu við skipti á búum einstaklinga.

Áætlaður kostnaður vegna þessa er um 140 milljónir króna á næsta ári. „Markmið frumvarpsins er að þeim einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluörðugleikum og hafa leitað annarra greiðsluvandaúrræða án árangurs verði gert kleift að krefjast gjaldþrotaskipta,“ segir í umsögn um frumvarpið. „Gert er ráð fyrir því að umboðsmaður skuldara geti að uppfylltum tilteknum skilyrðum veitt umsækjendum fjárhagsaðstoð sem felst í greiðslu á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskiptanna fyrir hönd skuldarans.“