Tugþúsundir húseigenda bíða enn eftir aðgerðum sem liðkað gætu fyrir viðskiptum með yfirveðsettar eignir. Um 3.700 nauðungarsölubeiðnir hafa verið lagðar fram á síðustu 20 mánuðum hjá Sýslumanninum í Reykjavík.

Ásgeir Erling Gunnarsson, viðskiptafræðingur og löggiltur skipa-, fyrirtækja og fasteignasali hjá SKIPA- og HÚSANAUST ehf., gagnrýnir tal um að fasteignamarkaðurinn sé að rétta úr sér.

Í fjötrum

„Ég set stórt spurningarmerki við slíkt og mér sýnist að þarna sé verið að blekkja fólk í viðleitni að tala upp markaðinn. Það hefur vissulega verið einhver aukning frá fyrra ári en mér sýnist það að stærstum hluta vera vegna uppsafnaðs vanda. Fólk er orðið langeygt eftir almennum aðgerðum, fjárhagsgeta margra á þrotum til að bíða með sölu eigna, en ásetningur stjórnvalda virðist vera að gera ekki neitt fyrir almenning. Fasteignamarkaðurinn mun verða í fjötrum þangað til gripið verður til almennra aðgerða, svo sem leiðréttingar höfuðstóls, tímabundinnar hækkunar veðsetningarhlutfalls lánastofnana og slíkra aðgerða sem gera fólki kleift að selja fullveðsettar eignir."

Hjálpað að pissa í skóna sína

„Ef ríkið og bankarnir sjálfir hefðu sýnt vilja til að liðka eitthvað til með þessa hluti þannig að fjölskyldur með stórar eignir geti keypt sér eitthvað minna, þá hefði það breytt miklu fyrir marga. Fólk gæti þá bjargað sér sjálft í stað þess að vera algjörlega háð sértækum aðgerðum stjórnvalda sem gera ekkert nema að hjálpa þeim að pissa í skóna sína. Það kemur að því að frystingunum lýkur."

- Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins