Hjónin sem Hæstiréttur dæmdi í vil í lánamálinu í dag heita Sigurður Hreinn Sigurðsson og Maria Elvira Mendez Pinedo. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að þau hafi tekið fimm gengistryggð lán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum á árunum 2004 og 2006.

Maria Elvira Mendez Pinedo, lektor við lögfræðideild HÍ.
Maria Elvira Mendez Pinedo, lektor við lögfræðideild HÍ.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Maria Elvira er með meistaragráðu í alþjóðlegum réttindareglum frá University of the Pacific Mc. George School of Law í Sacramento í Kaliforníu og doktorsgráðu í Evrópurétti frá Universidad de Alcalá de Henares í Madrid á Spáni.

Sigurður er 49 ára kvikmyndagerðarmaður og hefur margoft tjáð sig á opinberum vettvangi um stöðu efnahagsmála, fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, bankana en þó mest um gengislánamál á bloggvef sem hann heldur úti undir nafninu siggi-hrellir .

Ekki hefur tekist að ná sambandi við þau Sigurð og Maríu Elviru.

Fólk stóð með naumindum í skilum

Sigurður sagði í samtali við DV í september 2010 dóm Hæstaréttar sem þá var nýfallinn í gengislánamálinu koma illa við sig eins og þorra þeirra sem hafi tekið gengistryggð lán, sérstaklega fasteignalán. Hann spurði því hvort verið sé að verðlauna lánastofnanir fyrir að brjóta lög sem banni gengistryggingu.

Hann gaf lítið fyrir dóminn árið 2010, taldi hann takmarkaðan og taldi óvissu ekki hafa verið eytt. Hann sagði í samtali við blaðið: „Ég velti því fyrir mér hvort dómararnir hafi í alvöru ígrundað það hvernig dæmið lítur út. Fólk sem hefur með naumindum staðið í skilum með þessa stökkbreyttu höfuðstóla er í verulega slæmum málum.“

Í samtali við DV fyrir um ári sagðist honum ofbjóða afskriftir Landsbankans til auðmanna á meðan ekkert væri gert fyrir almenning. Tilefni viðtalsins var að Sigurður hafði sent bankastjóra og stjórn Landsbankans tölvupóst þar sem hann tilkynnti þeim að vegna þess hvernig staðið hafi verið að málum bankans, svo sem 30 milljarða króna framlagi til Icelandic Group, ætli hann að sýna hug sinn í verki, taka út sparnað sinn í bankanum, loka VISA-korti sínu, hætta viðskiptum sínum við bankann og flytja þau í sparisjóð.