Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar fer hann um víðan völl og segir m.a. frá því að árið 2021 hafi verið frábært ár í Kauphöllinni - mun betra en hann hefði þorað að vona.

Hann segir tvær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru undir lok árs 2020 hafa gefið tilefni til bjartsýni inn í árið 2021. „Annars vegar þessi skattalega breyting, sem ég hef þegar komið inn á, og hins vegar sala á ríflega þriðjungshlut í Íslandsbanka. Ég tel að ríkisstjórnin hafi skynjað að hlutabréfamarkaðir væru að styrkjast og séð aukinn áhuga meðal almennings í Icelandair-útboðinu." Því hafi stjórnvöld sett traust sitt á að selja nokkuð stóran hlut í bankanum einungis á íslenska markaðnum, í stað tvískráningar líkt og t.d. var gripið til er Arion banki var skráður á markað.

„Íslenski markaðurinn hefur svo sýnt og sannað að hann stendur sannarlega undir því. Íslandsbankaútboðið heppnaðist mjög vel og vakti áhuga almennings. Með þessu náði ríkið að fjármagna sig, auk þess sem erlendir fjárfestar keyptu nærri þriðjung af þeim hlutum sem boðnir voru út í hlutafjárútboðinu."

Almenningur og erlendir fjárfestar í lykilhlutverki

Þegar horft er til þróunar verðbréfamarkaðarins til framtíðar segir Magnús tvo hópa fjárfesta sérlega mikilvæga: almenning og erlenda fjárfesta. „Í Íslandsbanka-útboðinu fengum við inn vel metna erlenda fjárfesta. Vissulega seldu einhverjir þeirra snemma en stóra myndin sýnir að þarna komu inn virtir alþjóðlegir fjárfestar sem að öllu jöfnu horfa ekki til skamms tíma."

Næst víkur Magnús aftur að því þegar íslenski markaðurinn var tekinn inn í vaxtamarkaðsvísitölu MSCI. Í kjölfar þessa hafi nokkuð af erlendu fjármagni streymt inn á markaðinn. Þó hafi sala vogunarsjóðsins Taconic Capital, sem um skeið var stærsti hluthafi Arion banka, á öllum hlut sínum í bankanum, orðið til þess að nettó-innflæðið hafi verið lítið sem ekkert. Því megi vænta þess að íslenski markaðurinn eigi töluvert inni hvað innstreymi erlends fjármagns varðar.

„Rétt eins og ég taldi að markaðurinn ætti töluvert inni hvað nýskráningar og þátttöku almennings varðar í lok 2020, þá tel ég að það sama eigi við nú þegar horft er til erlendra fjárfesta. Ég tel markaðinn eiga erlendu fjárfestana inni vegna þess að við finnum fyrir auknum áhuga á íslenska markaðnum að utan." Sá áhugi hafi vaxið verulega í kjölfar tilkynningar FTSE frá því í september um fyrirætlanir þeirra um að hækka flokkun íslenska markaðarins, úr vaxtarmarkaði (e. frontier) yfir í „secondary emerging", sem að óbreyttu mun eiga sér stað næsta haust.

„Það er svo sem ekkert fast í hendi fyrr en þessi nýja flokkun er í höfn en ég sé engar efnislegar ástæður fyrir því að fallið verði frá þessum áformum. FTSE setur íslenska markaðinn á skoðunarlista af góðri ástæðu. Þessari flokkun myndi fylgja nokkurra tuga milljarða innflæði, því það er svo miklu meira fjármagn sem fylgir þessari „secondary emerging" vísitölu heldur en vaxtamarkaðsvísitölunni. Þessi tímamót marka því viss þáttaskil í sögu íslensks hlutabréfamarkaðs."

Áhættufælnin virðist heyra sögunni til

Magnús segir nokkra þætti hafa valdið því að einstaklingar hafi gert sig gildandi á hlutabréfamarkaði undanfarin misseri. Lágt vaxtastig hafi vitaskuld spilað stóra rullu, þar sem á sama tíma og einstaklingar voru með bankainnistæður í methæðum hafi vextir verið í metlægðum vegna Covid-kreppunnar.

„Þrátt fyrir að vextir hafa farið hækkandi undanfarið eru þeir samt mjög lágir í sögulegu samhengi. Við þessar aðstæður er eðlilegt að fólk færi hluta sparnaðar síns í fjárfestingar, þar sem raunvextir hafa verið neikvæðir í faraldrinum." Það hafi þó þurft eitthvað til þess að ýta þessari þróun af stað og segir Magnús Icelandair Group-hlutafjárútboðið haustið 2020 svo sannarlega hafa gert það. „Allt frá hruni var fólki tíðrætt um að einstaklingar væru orðnir mjög áhættufælnir og lítt hrifnir af því að setja sparnað sinn í fjárfestingar á borð við hlutabréf. Í Icelandair-útboðinu, sem var sannarlega ekki áhættulaus fjárfesting, sem og útboðum Play og Solid Clouds, sem eru vaxtarfyrirtæki á fyrstu stigum, styrktist trú manns á að einstaklingar á Íslandi hefðu sama áhuga á að fjárfesta í hlutabréfum og einstaklingar hafa á hinum Norðurlöndunum."

Nánar er rætt við Magnús í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .