Samkvæmt miðspá Hagstofunnar um fólksfjölda má áætla að byggja þurfi að minnsta kosti 46 þúsund nýjar íbúðir hér á landi næstu hálfa öldina líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um. Framtíðar íbúðauppbygging er að langstærstu leyti í höndum sveitarfélaga landsins enda úthluta þau lóðum. Um síðustu áramót fékk Íbúðalánasjóður það verkefni að aðstoða sveitarfélögin við gerð húsnæðisáætlana.

Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs, segir húsnæðisáætlanirnar nái ekki jafn langt fram í tímann og sú mannfjöldaspá sem lögð sé til grundvallar hér. Áætlanirnar séu annars vegar gerðar til fjögurra ára og hins vegar átta ára.

„Það er auðvitað margir óvissuþættir sem spila inn í þegar verið er að spá fimmtíu ár fram í tímann, bæði hvað varðar mannfjöldaspá og íbúa per íbúð,” segir Sigrún Ásta. „Þetta er spá og því ómögulegt að segja hver hin raunverulega þróun verður. Aftur á móti sýnir þessi spá hversu mikilvægt það er að vera með góða áætlanagerð.”

Sigrún Ásta segir að vinna Íbúðalánasjóðs við húsnæðisáætlanir snúist fyrst og fremst um að koma á samræmdri áætlanagerð hjá sveitarfélögunum, sem eru 74 talsins. Í þessum áætlunum verði hægt að sjá hvernig sveitarfélögin ætli að mæta húsnæðisþörfinni, bæði til lengri og skemmri tíma. Hún segir að með því að hafa samanburðarhæfar upplýsingar aukist yfirsýnin því hægt verði að sjá hver staða húsnæðismála í hverju sveitarfélagi fyrir sig sé.

„Frá því byrjun þessa árs erum við búin kynna okkar tillögu að samræmdu efnisyfirliti húsnæðisætlunar og funda með yfir fimmtíu sveitarfélögum,” segir Sigrún Ásta. „Í grófum dráttum er hægt að skipta þessari vinnu í þrennt. Í fyrsta lagi er það staða húsnæðismála í sveitarfélaginu, eins og til dæmis framboð íbúða og íbúðir í byggingu. Í öðru lagi er það skipulag og þarfagreining, þar sem meðal annars er verið að meta áætlaða þörf á húsnæði. Að lokum er það markmið og aðgerðaráætlun þar sem meðal annars er tekið tillit til mannfjöldaþróunar, kostnaðar við uppbyggingu og fleira.”

Ákveðin mótsögn

„Sveitarfélögin eru komin mislangt á veg en í heildina eru um fimmtán komin á lokametrana og þar af þrjú þegar búin að birta húsnæðisáætlun,” segir Sigrún Ásta. „Eins og áður sagði eru þessari áætlanir bæði til fjögurra ára, líkt og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga, en einnig til átta ára en með því erum við að reyna að fá meiri langtímahugsun í þessi mál. Undantekningarlaust hafa forsvarsmenn sveitarfélaganna tekið vel í þessa vinnu og verið sammála um mikilvægi svona áætlunargerðar. Við höfum frá upphafi verið í miklu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga.”

Sigrún Ásta segir að staðan í dag sé þannig að mesta þörfin sé á litlum hagkvæmum íbúðum. „Það er mjög áhugavert að skoða þróunina undanfarin ár. Á sama tíma og ákall erum að litlar hagkvæmar íbúðir er mest verið að byggja stærri og þar af leiðandi dýrari íbúðir en áður var gert. Það er ákveðin mótsögn í því.”