Rekja má stóran hluta verðhækkunar fasteigna á árunum frá 2004 til 2007 til fólksflutninga til landsins. Þetta kemur fram í ritgerðinni „Icelandic boom and bust: Immigration and the housing market“ eftir Lúðvík Elíasson, hagfræðing hjá Seðlabankanum.

Í henni er fjallað um þá miklu sveiflu sem varð á fasteignamarkaðnum á árunum 2003 til 2012. „Fólksflutningar frá landinu eiga svo þátt í þeirri verðlækkun fasteigna sem fylgdi í kjölfarið,“ segir í umfjöllun um ritgerðina á vefsíðu Seðlabankans.

„Ekki hafa áður mælst svo sterk áhrif breytinga í mannfjölda á fasteignamarkað hér á landi enda hafa sveiflur í fólksflutningum til og frá landinu undanfarna áratugi ekki áður verið jafn miklar og á árunum frá 2004 til 2010. Sú bóla sem virðist hafa myndast í fasteignaverði 2004 til 2007 skýrist því að mestu leyti af þróun undirliggjandi stærða, svo sem breytinga á fjármögnunarkostnaði og aðgengi að lánsfé, auk fólksflutninga til landsins.“