Hrein staða þjóðarbúsins við útlönd var í lok fyrsta ársfjórðungs neikvæð um 7.462 milljarða króna eða sem nemur 411% af vergri landsframleiðslu, samkvæmt eldri staðli Seðlabankans við mat á stöðunni. Samkvæmt nýja staðlinum versnar staðan nokkuð en samkvæmt honum var hún á tímabilinu neikvæð um 7.538 milljarða króna eða fjórum prósentustigum meira af vergri landsframleiðslu. Ef þrotabú bankanna eru tekin út úr jöfnunni skánar staðan talsvert. Þá verður hún samkvæmt eldri staðli neikvæð um 194 milljarða króna eða sem nemur 11% af vergri landsframleiðslu. Ef mið er tekin af nýja staðlinum er staðan hins vegar nokkuð verri eða sem nemur 250 milljörðum króna eða 14% af vergri landsframleiðslu.

Við lok annars ársfjórðungs var hrein staða við útlönd neikvæð um 7.483 milljarða króna eða sem nemur 414% af vergri landsframleiðslu. Ef þrotabú bankanna eru tekin úr jöfnunni er staðan neikvæð um 182 milljarða eða 10% af vergri landsframleiðslu.

Seðlabankinn tekur fram í mati sínu á stöðu þjóðarbúsins að í nýja staðlinum er m.a. gerð sú breyting að eign einstaklinga í lífeyris- og tryggingasjóðum telst til fjármálalegra eigna og skulda þjóðarbúsins. Breytingin hefur neikvæð áhrif á hreina stöðu þjóðarbúsins við útlönd upp á 36 milljarða króna.