Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir í samtali við RÚV að staðfest sé með nýjum dómi Hæstaréttar að föllnu bankarnir geti greitt út kröfur í erlendri mynt. Það sé sama hvort þeim verði slitið með nauðasamningum eða gjaldþroti.

Hæstiréttur staðfesti í fyrradag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli kröfuhafa Kaupþings gegn slitastjórn bankans. Var þess krafist fyrir dómi að krafa, sem greidd var út, miðaðist við skráð gengi evru þegar greiðsla var innt af hendi, en ekki við gengið 22. apríl 2009 þegar bankinn fór í slitameðferð. Dæmdi Hæstiréttur kröfuhafanum í vil og sagði jafnframt að lög kæmu ekki í veg fyrir að þrotabú greiddu kröfuhafa í erlendri mynt ef búið ætti slíkar eignir.

Steinunn segir að Glitnir og aðrir fallnir bankar hafi haft þennan hátt á, en Glitnir hefur þegar greitt úr allar forgangskröfur, að hluta í erlendri mynt. Steinunn segir gott að fá staðfestingu á þessu fyrir dómi þar sem þær raddir hafi heyrst að þær ætti að greiða í íslenskum krónum.