© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Ríkisábyrgð á innlánum kann að gefa fjármálafyrirtækjum falska öryggiskennd, segir í skýrslu Bankasýslunnar um stöðu og rekstur fjármálastofnana á síðasta ári.

„Ótakmörkuð ábyrgð ríkis á innstæðum eða fjármögnun fjármálafyrirtækja í heild getur ýtt undir óábyrga hegðun stjórnenda. Sömuleiðis getur eignarhald ríkis á fjármálafyrirtækjum reynst óheppileg til lengri tíma þótt það hafi reynst nauðsynlegt til skamms tíma í kjölfar bankahruns. Sérstaklega á það við ef um óarðbær eða undirfjármögnuð fjármálafyrirtæki er að ræða sem annaðhvort treysta á aukin framlög ríkisins eða sækja í áhættusöm verkefni í krafti ríkisábyrgðar.“

Þá segir að hærra framlag í innstæðutryggingarsjóð og afnám ríkisábyrgðar af inlán draga verulega úr hagnaði og arðsemi fjármálafyrirtækja. Nú er til meðferðar hjá Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um innstæðutryggingar sem gerir ráð fyrir að tryggingarvernd ríkisins verði afnumin en að fyrra lágmark hækki í 100.000 evrur, úr 20.887 evrum. Samfara hækkun eiga greiðslur innlánsstofnana í sjóðinn að hækka. Núverandi gjald er 0,15% af tryggðum innstæðum og greiddu viðskiptabankarnir þrír samtals 1,6 ma.kr. í Innstæðutryggingarsjóð á árinu 2010.

Samkvæmt núverandi tilllögum gera ráð fyrir hækkun gjalds í 0,3% af öllum innstæðum, auk áhættuálags. Samkvæmt mati viðskiptabankanna mun gjald þeirra í innstæðutryggingarsjóð nema um 5,4 milljörðum króna, sem er rúmlega fjórföldun á núverandi gjaldi. Samtals mun fjárhæð allra innlánsstofnana líklega nema 6,5-7 milljörðum króna, segir í skýrslu Bankasýslunnar.