Norskir sérfræðingar á sviði endurskoðunar, Helge Skogseth Berg og Arne Jørgen Rønningen, telja Landsbankann hafa staðið mun verr en ársreikningur bankans í lok árs 2007 gaf til kynna og að endurskoðendur frá PwC, ytri endskoðanda bankans, hafi vitað af því. Fyrirtækjum sem tengd hafi verið Björgólfsfeðgum, stærstu eigendum bankans, m.a. Icelandic Group og Eimskip, hafi verið haldið á lífi með blekkingum og yfirdráttarlánum.

Þetta kemur fram í skýrslu sem norsku sérfræðingarnir, sem eru starfsmenn Lynx Advokatfirma DA, unnu fyrir embætti sérstaks saksóknara um Landsbankann. Henni var skilað til embættisins 2. nóvember sl. og er að miklu leyti byggð á gögnum sem haldlögð voru í húsleit hjá PwC 1. október í fyrra. Á sama tíma var leitað í húsakynnum KPMG og Deloitte.

Glitnir átti að missa bankaleyfið 2007

Endurskoðandi Glitnis, PricewaterhouseCoopers (PWC), sýndi af sér vanrækslu í starfi og starfaði ekki í samræmi við alþjóðlega reikniskilastaðla né reglur Fjármálaeftirlitsins (FME) við endurskoðun sína á bankanum. Þetta kemur fram í skýrslu franska rannsóknarfyrirtækisins Cofysis. Hún var til umfjöllunar í fréttum RÚV í kvöld og Kastljósinu, og í DV í morgun. Skýrslan er unnin undir handleiðslu Jean-Michel Matt, fransks endurskoðanda sem aðstoðar embætti sérstaks saksóknara við rannsókn hans á íslenska bankahruninu. Hann kom að þeirri vinnu fyrir tilstilli Evu Joly.

Að mati skýrsluhöfunda var eigið fé Glitnis mjög ofmetið í öllum birtum reikningum frá árslokum 2006. Það hafi til að mynda átt að vera 27,9 milljarðar króna í árslok 2007 en í ársreikningi hafi það verið sagt vera um 170 milljarðar króna.  Ef eigið fé hefði verið fært niður líkt og átti að gera hefði eiginfjárhlutfall Glitnis verið 4,5% í árslok 2007 og þar af leiðandi undir því 8% marki sem FME gerir kröfu um. Því hefði Glitnir ekki haft nægjanlega sterkt eigið fé „til að starfa sem banki frá að minnsta kosti desember 2007“.

-Ítarlega er fjallað um skýrslur norsku og frönsku sérfræðinganna í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.

Meðal annars efnis í blaðinu á morgun:

  • Samanburður á afkomutölum bankanna
  • Samkomulag um lausn á skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja kynnt öðru hvoru megin við helgina
  • Erlendar lánastofnanir hafa afskrifað hátt í 6 þúsund milljarða vegna íslenska bankahrunsins
  • FME neitar að tjá sig um eiginfjárstöðu Lýsingar
  • Sjóvá tapaði 20 milljörðum vegna Milestone og Földungs
  • Árni Sigfússon segir það mikils virði að taka áhættu
  • Vinnustaðaheimsókn í Borg brugghús
  • Úttekt á haustspá framkvæmdastjórnar ESB um Ísland
  • Sjö valinkunnir rithöfundar mæla með jólabókum

Og margt, margt fleira..