*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 8. febrúar 2006 09:16

Fons eykur hlut sinn í sænska félaginu Ticket rúmlega 25%

Ritstjórn

Eignarhaldsfélagið Fons, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, hefur aukið hlut sinn í sænsku netferðaskrifstofunni Ticket Travel Group í 25,27% úr rúmlega 20%, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Lokagengi bréfanna í kauphöllinni í Stokkhólmi var 20,2 krónur á hlut. Kaupverð á hlutunum í gær var ekki fáanlegt, en Fons keypti síðast í félaginu á 19,5 sænskar krónur á hlut.

Fjármálasérfræðingar í Svíþjóð telja það líklegt að markmið Fons að taka yfir Ticket Travel. Pálmi Haraldsson segir félagið "munaðarlaust" og að það sé í mjög dreifðri eignaraðild, en stærstur hluti bréfa í Ticket Travel eru í eigu hluthafa sem eiga undir 1% hlut í félaginu. Sænska fjármálafyrirtækið Skandia er næst stærsti hluthafinn í Ticket Travel með um 9% eignarhlut.

Ticket Travel var rekið með tapi árin 2000-2003, en hagnaður varð af rekstri félagsins árið 2004. Hagnaður eftir skatta í fyrra, fyrstu níu mánuði ársins, nam 11,2 milljónum sænskra króna, eða 89,6 milljónum íslenskra króna. Árið 2004, þegar viðsnúningur varð á rekstri félagsins, fyllti Ticket Travel rúmlega fjögur þúsund Boeing-737 flugvélar.