Fons, félag í meirihluta eigu Pálma Haraldssonar, keypti 6,08% hlut í FL Group af Gnúpi fjárfestingafélagi fyrir tíu milljarða króna í dag.

Eftir viðskiptin eykst hlutur Fons í FL Group í 10,76% úr 4,68% og hlutur Gnúps lækkar í 2,46% úr 8,54%, að því er fram kemur í tilkynningum til Kauphallarinnar,

Um er að ræða 826.446.281 hluti og fóru viðskiptin fram á genginu 12,1. Lokagengi FL Group var 11,3 í dag og lækkuðu bréfin um 7,89%. Til samanburðar lækkaði Úrvalsvísitalan um 3,26%. Samkvæmt flöggun Kauphallarinnar verður Fons þriðji stærsti hluthafi FL Group, sæti sem Gnúpur vermdi áður, rétt á eftir Oddaflugi B.V., sem er í eigu Hannesar Smárasonar fyrrverandi forstjóra FL Group, sem á 10,86% hlut, samkvæmt upplýsingum úr hluthafaskrá. Baugur Group er stærsti hluthafi FL Group.