Eignarhaldsfélagið Fons, sem er í eigu fjárfestanna Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, hefur keypt 49,89% hlut í Plastprenti sem félagið seldi til Íslandsbanka í nóvember síðastliðnum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Örn Gunnarsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka, staðfesti þetta í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins en vildi ekki tjá sig um ástæður endurkaupanna. Ekki náðist í Pálma Haraldsson eða Jóhannes Kristinsson.

Fons eignaðist fyrst bréfin í Plastprenti um leið og félagið keypti Skeljung í upphafi árs 2004 af Steinhólum, sem var í eigu Kaupþings banka. Íslandsbanki eignaðist svo hlutinn í nóvember og ætlaði að selja hann áfram.

Aðrir hluthafar í Plastprenti eru Prentsmiðjan Oddi með 20%, dánarbú Sigurðar Egilssonar með 10% hlut og Sigurður Bragi Guðmundsson, forstjóri félagsins, með 7% hlut.

Plastprent velti um tveimur og hálfum milljarði króna árið 2004 og hefur stöðugt stærri hluti starfsemi félagins farið fram erlendis en það hefur undanfarin ár byggt upp starfsemi í Lettlandi og Litháen. Félagið vex um 20-30% á ári erlendis og eru horfur á þessu að á þessu ári verði meirhluti tekna félagsins erlendis í fyrsta skipti í sögu þess.