Uppspretta, félag í eigu Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, hefur keyptar allar fasteignir, það er að segja bensínstöðvar, af fasteignafélaginu Stoðum. Um er að ræða á bilinu 30-35 stöðvar út um allt land.

Kaupverðið er á fjórða milljarð króna. Uppspretta heldur utan um öll hlutabréf í Skeljungi. Hugmyndin að baki kaupunum á fasteignunum er sú að Uppspretta verði í raun og veru Skeljungssamstæðan, að sögn Gunnars Karls Guðmundssonar, forstjóra Skeljungs.

Forsaga málsins er sú að Fons keypti á sínum tíma félagið Steinhóla af Kaupþingi. Steinhólar áttu alla hluti í Skeljungi. Steinhólar og Skeljungur voru í framhaldinu sameinuð undir kennitölu Skeljungs. Skeljungur var síðan seldur Högum og félaginu skipt upp í Skeljung og S-fasteignir. S-fasteignir fóru síðan inn í fasteignafélagið Stoðir.

"Félagið kemur núna inn í Skeljung sem systurfélag og hluti af Skeljungssamstæðunni. Þetta breytir því fyrir Skeljung að ákvarðanataka við framkvæmdir verður einfaldari og að mörgu leyti verður reksturinn skilvirkari," segir Gunnar Karl.

Olíustöðvar og önnur mannvirki sem eru rekstrartengd fyrirtækinu voru aldrei seld út úr Skeljungi. Aðeins er því um bensínstöðvarnar að ræða.

Gunnar Karl segir að verðmat á eignum af þessu tagi sé ávallt erfitt. Fyrst og fremst sé um að ræða verðmæti lóða og staðsetningar og þegar slíkar eignir fara inn í fasteignafélög sé verð metið fyrst og fremst út frá greiðslustreyminu sem verður af eigninni. Það geti síðan orðið allt annað sé eignin nýtt í annað. Hann segir að verðmatið sé því ekki í raun markaðsverð heldur byggi fremur á þeim tekjumöguleikum sem viðkomandi rekstur gefur

"Verðmat lóðarinnar í Örfirisey er í bókum til að mynda langt undir því sem lóðin myndi seljast á. En hún er samt ekki verðmeiri í núverandi rekstri en það sem við metum hana á. Ef þarna yrði íbúðarbyggð þá kæmi til allt annað verðmat," segir Gunnar Karl

Þarna vísar Gunnar Karl til lóðarinnar í Örfirisey þar sem olíutankarnir standa. Helmingaskipti eru á þessari lóð milli Skeljungs og Olíudreifingar.