Fjarskiptafyrirtækið Teymi hefur selt allan eignarhlut sinn í Securitas á 3.8 milljarða króna, segir í fréttatilkynningu. Kaupandi er óstofnað félag í eigu eignarhaldsfélagsins Fons.

Söluverðið kemur allt til greiðslu á þessu ári og er áætlaður söluhagnaður Teymis af sölu Securitas um 500 milljónir króna.

Einnig hefur verið samið við Landsbanka Íslands um yfirtöku á kröfu Teymis á Hands Holding sem bókfærð var á tæpa 2,7 milljarða í lok síðasta árs. Sú krafa var hluti af skiptingu Dagsbrúnar, þegar Teymi var stofnað.

Áhrif þessara ráðstafana á efnahagsreikning Teymis eru þau að vaxtaberandi skuldir lækka um 5,4 milljarða króna miðað við síðustu áramót, eða úr 27,3 milljörðum í 21,9 milljarða. Jafnframt hækkar veltufjárhlutfall Teymis úr 0,51 í 1,19 ef miðað er við síðustu áramót.

?Allt frá stofnun Teymis í nóvember 2006, höfum við sagt að skuldsetning og vaxtabyrði félagsins sé of mikil og að það yrði forgangsverkefni okkar að laga þá stöðu. Allar aðgerðir okkar hafa miðað að því að styrkja efnahaginn og sala á Securitas og yfirtaka Landsbankans á láni Hands Holding er uppfylling á þessum fyrirheitum. Eftir stendur að staða Teymis hefur styrkst verulega.?, segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis.

?Á því ári sem liðið er frá því Teymi keypti Securitas hefur verið unnið markvisst að því að styrkja félagið. Veltuaukning Securitas á síðasta ársfjórðungi 2006 var 60% og EBITDA hagnaðurinn rúmlega tvöfaldaðist ef miðað er við sama tímabil árið 2005. Securitas hefur því verið að styrkjast undir öruggri stjórn Guðmundar Arasonar, framkvæmdastjóra og starfsfólks hans. Við óskum nýjum eigendum félagsins og starfsfólki þess alls hins besta í framtíðinni.

Securitas er eina fyrirtækið sem heyrði undir þann starfsþátt Teymis sem tengdist öryggi og með sölunni erum við að skerpa sýn okkar og auka áherslu á meginstoðirnar tvær; fjarskipti og upplýsingatækni,? segir Árni Pétur.