Lögmaður Pálma Haraldssonar hefur mótmælt framlagningu gagna um lánveitingar Glitnis til Fons og dótturfélaga þess í riftunarmálum sem skiptastjóri Fons hefur höfðað á hendur Pálma.

Um er að sömu gögn og slitastjórn Glitnis hefur lagt fram í skaðabótamáli gegn Pálma og fleirum í Aurum Holding-málinu. Skiptastjóri Fons hefur höfðað fjölda riftunarmála vegna gerninga sem áttu sér stað fyrir þrot félagsins.

Með riftunarmálunum vonast þrotabúið til að endurheimta allt að 9 milljörðum króna. Vörn Pálma hefur byggst á því að ársreikningar Fons á hverjum tíma fyrir sig hafi gefið rétta mynd af stöðu félagsins og því sé t.d. ekkert athugavert við 4,2 milljarða arðgreiðslur út úr því, sem greidd var út haustið 2007. Því er þrotabú Fons ósammála. Dómskvaddir matsmenn verða því skipaðir til að meta rétta stöðu Fons.