Eigandi lággjaldaflugfélagsins Sterling, Northern Travel Holding sem er í eigu Fons og FL Group, hefur lagt félaginu til um 180 milljónir danskra króna, jafngildi um nær 2,9 milljarða íslenskra króna að því er fram kemur í frétt Børsen.

Samkvæmt upplýsingum úr dönsku ársreikingaskránni lögðu Fons og FL Group Sterling til 130 milljónir danskra króna og þá var eigið fé Sterling styrkt enn frekar með 50 milljóna danskra króna láni sem eigendur Sterling, þ.e. Northern Travel Holding eða Fons og FL Group, hafa ábyrgst.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eigendurnir hafa þurft að leggja Sterling til fé því þótt þeim hafi tekist að bæta reksturinn umtalsvert er Sterling enn rekið með tapi.

Í frétt Børsen segir í fyrra, sem sumir telji þó hafa verið eitt besta árið í flugrekstri, hafi Styerling verið með neikvætt sjóðsstreymi upp á nær 1,7 milljarða íslenskra króna en tapið hafi numið nær 550 milljónum íslenskra króna.

Þá segir að miklar hækkanir á eldsneytisverði frá því í lok síðasta árs hafi komið ákaflega illa við rekstur Sterling og það verði afar erfitt að standa undir markmiðum um að félagið ná að skili hagnaði á þessu ári.