Sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe hefur átt í samrunaviðræðum við norræna keppnautinn Sterling Airlines, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins. En það mun skipta megin máli um framtíðaráætlanir fyrirtækisins hvort að lággjaldafélagið Fly Nordic, sem er í eigu Finnair, muni samþykkja að taka þátt í samstafinu, segja heimildarmenn blaðsins. FL Group á 10% hlut í Finnair.

Sterling er í eigu FL Group, en fyrirtækið keypti sameinað Sterling og Mærsk Air fyrir 15 milljarða í fyrra af eignarhaldsfélaginu Fons, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að ekki sé í raun og veru um beina yfirtöku FlyMe á Sterling að ræða heldur "öfuga yfirtöku" (e. reverse takeover) og að möguleikinn hafi verið fyrir hendi þegar ákveðið var að FL Group keypti Sterling-samstæðuna. Það er því FL Group sem mun gleypa FlyMe ef samningar nást.

Eignarhaldfélagið Fons er stærsti hluthafinn í FlyMe, með rúmlega 20% hlut, og hefur félagið aukið við eignarhlut sinn jafnt og þétt frá því að Sterling-samstæðan var seld. Björn Olegaard, stjórnarformaður FlyMe sagði á miðvikudaginn að félagið hefði huga á að taka þátt í samþjöppun á evrópska flugmarkaðnum og hefur fyrirtækið útbúið lista með nöfnum á 4-6 félögum sem mögulegt væri að taka yfir. Talið er að FlyMe hafi einnig áhuga á norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian. FlyMe hefur samþykkt að kaupa Lithuanian Airlines á næsta ári, en áreiðanleikakönnun hefur hins vegar ekki verið lokið.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að ef samningar nást verði til félag með um 30% markaðshlutdeild á norrænum smásöluflugmarkaði, eða í beinni sölu til fyrirtækja, en skandinavíski flugrisinn SAS hefur verið sterkastu á lengi á smásölumarkaðnum. Reiknað er með að sameinað félag muni flytja um 8-10 milljónir farþega á ári.

FlyMe hefur náð samningum við Gliti um ráðgjöf og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að FlyMe hafi einnig átt í viðræðum við bankann um að fjármagna hugsanlegar yfirökur. Talsmaður Glitnis neitaði því að um fjármögnunarsamning sé að ræða.