Ólafur Torfason hóf ungur störf í matvöruverslun föður síns við Grundarstíg - Þingholtum - og keypti hana seinna af honum. Undir lok áttunda áratugarins seldi hann einbýlishús sem hann hafði nýverið byggt, flutti í leiguhúsnæði og notaði söluandvirði hússins til að ganga til liðs við föður sinn og fleiri sem reistu verslunarkjarna við Engihjalla í Kópavogi og ráku þar verslunina Kaupgarð. Sá rekstur var seldur fáeinum árum seinna og í kjölfarið reist íbúðar-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði í miðbæjarkjarna Garðabæjar. Enn var sá verslunarrekstur seldur og ráðist í byggingaframkvæmdir við Rauðarárstíg, þar sem Hótel Reykjavík hóf starfsemi árið 1992. Grand Hótel bættist við þremur árum síðar og loks Centrum við Aðalstræti.

Ólafur hefur nú keypt þá eldri út úr rekstrinum, "til að leyfa þeim að njóta ævikvöldsins". Hann á því hótelreksturinn alfarið sjálfur og einnig 80% í fasteignunum við Sigtún og Rauðarárstíg. (Stoðir eiga húsnæði Centrum.) Hótelin þrjú velta að sögn Ólafs um það bil tveimur milljörðum á þessu ári og fasteignareksturinn nokkur hundruð milljónum. Að auki á Ólafur 30% hlut í Fosshótelum. "Þetta er ágætt en ekkert ævintýralega mikið svo sem," segir hann. "Í dag eru allir í einhverjum tugmilljörðum!"

Ólafur er í helgarviðtali í Viðskiptablaðinu.