Geir H. Haarde forsætisráðherra fundaði með Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni Straums-Burðaráss, í Stjórnarráðinu í fyrrakvöld, sem og bankastjórum Landsbankans, þeim Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni.

Geir vildi í samtali við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í gærmorgun lítið sem ekkert greina frá því sem fram hefði farið á fundinum. Staðan í bankaheiminum hefði þó verið rædd.

„Ég nota gjarnan tækifærið og spjalla við Björgólf Thor þegar hann er á landinu,“ var haft eftir Geir á visir.is í gær.

Hann hefði fyrr um morguninn, sömuleiðis, átt samtal við forráðamenn allra íslensku bankanna í síma.

„Það er bara hluti af því sem ég þarf að gera í minni vinnu,“ sagði forsætisráðherra.

Hann kvaðst ekki geta svarað því hvort áhugi væri hjá forsvarsmönnum Landsbankans á að koma inn í Glitnissamninginn.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri var á ríkisstjórnarfundinum í gærmorgun. Hann kvaðst þar hafa farið yfir stöðuna. Hvorki Davíð né Geir vildu svara yfirlýsingu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stærsta eiganda Glitnis, í Fréttablaðinu í gær um að yfirtaka Glitnis hefði verið stærsta bankarán Íslandssögunnar.