Sprotafyrirtækið Skema er á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir þau tíu fyrirtækja sem áhugaverðast verður að fylgjast með á árinu og er talið að muni slá í gegn hjá neytendum. Umfjöllun blaðsins tengist tækniráðstefnunni SXSW í Austin í Texas í Bandaríkjunum fyrir hálfum mánuði. Á ráðstefnunni er sýnt það ferskasta úr heimi stafrænnar tækni og tölvuleikjum. Rakel Sölvadóttir, framkvæmdastjóri Skema, tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni með fleiri íslenskum konum. Umræðuefnið var kreppa og uppgangur, Ísland, konur og viðskiptaárangur.

Skema sérhæfir sig í rannsóknum, þróun og kennslu í forritun á öllum skólastigum og hefur þróað aðferðafræði sem byggir á rannsóknum á sviði tölvunarfræði, kennslufræði og sálfræði. Fyrirtækið var stofnað árið 2011 og hefur staðið fyrir námskeiðum í forritun fyrir börn á aldrinum 7-16 ára. Þá hefur það aðstoðað grunn- og framhaldsskóla við innleiðingu forritunarkennslu í skólanámskrá.

Í tilkynningu frá Skema um málið er haft eftir framkvæmdastjóranum Rakel Sölvadóttur að umfjöllun sem þessi í tímaritinu sé fyrirtækinu verðmætt, ekki síst á sama tíma og til standi að opna starfsstöð Skema í Seattle í Bandaríkjunum í haust.