Dómar hafa fallið sitt á hvað í málum þar sem reynir á áhrif farsóttarinnar á efndaskyldur skuldara, en málsástæðum tengdum svokallaðri force majeure reglu hefur verið teflt fram í minnst sjö málum. Eðli þeirra er að vísu ekki einsleitt en eitt slíkt verður á dagskrá Hæstaréttar í haust.

Á degi hverjum eru gerðir óteljandi samningar um gervalla jarðarkringluna og spanna þeir alla flóruna, allt frá einföldum einskiptisviðskiptum, dæmi eru kaup á einni með öllu á bensínstöð, til annarra sem eru viðvarandi og öllu flóknari. Það er síðan gömul saga og ný að minna er rætt um farsæla samninga og helst rata samningar í umræðuna þegar allt fer í skrúfuna.

Þegar farsóttin skall á varð um leið ljóst að áhrifin yrðu gífurleg, áhugi á ferðalögum hrundi og sóttvarnaaðgerðir urðu til þess að færri komust til vinnu. Sem kunnugt er leiddi það til þess að eftirspurn eftir ákveðnum vörum hrundi en jókst á móti á öðrum. Ofan á það bættust síðan vandamál í birgðakeðjunni. Slíkt er augljóslega til þess fallið að flækja efndir ýmiss samkomulags og vaknaði þá sú spurning hvernig ætti að leysa úr þeirri flækju.

Ófyrirséð og óviðráðanleg?

Snemma var bent á það að í einhverjum tilfellum kynnu force majeure sjónarmið að eiga við. Í reglunni felst að fyrir hendi þarf að vera ófyrirséð og óviðráðanlegt ytra atvik, sérstakt í eðli sínu, sem gerir það að verkum að lítill sem enginn möguleiki er á að unnt sé að efna samning. Undir regluna hafa til að mynda fallið atburðir á borð við náttúruhamfarir og á seinni árum hafa stríðsátök lent innan sniðmengis hennar.

Í fræðunum hefur verið litið svo á að alvarlegar farsóttir, á borð við þá sem undanfarið hefur gert okkur lífið leitt, falli einnig þar undir en ekki er augljóst hvaða áhrif það á að hafa í hverju tilfelli fyrir sig. Augljóst er að seljanda bifreiðar sem eyðileggst í snjóflóði áður en hún er afhent verður ekki kennt um slíkt. Meiri vafi er aftur á móti uppi til að mynda um afhendingu vöru eða greiðslu peninga þegar farsóttin hefur riðlað starfseminni.

Í fyrstu bylgjunni svokölluðu birtist álitsgerð sem Viðar Már Matthíasson, rannsóknarprófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi hæstaréttardómari, hafði unnið að beiðni Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Niðurstaða hennar var að aðstæðurnar sem uppi voru teldust óvænt og ófyrirséð hindrun, sem gæti leyst aðila undan efni samnings um stundarsakir án þess að til skaðabótaskyldu eða greiðslu dráttarvaxta kæmi. Nýverið birtist síðan í Úlfljóti, tímariti laganema við Háskóla Íslands, grein þar sem farið er ítarlegar ofan í álitaefni sem af farsóttinni leiða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .