Bandaríski bílaframleiðandinn Ford hyggst fækka 3.200 störfum í Evrópu og færa stærri hluta vöruþróunar aftur til Bandaríkjanna að sögn stærsta verkalýðsfélags Þýskalands. Reuters greinir frá.

Verkalýðsfélagið IG Metall, sem er með yfir 2,2 milljónir félagsmanna, segir að Ford hafi tilkynnt starfsfólki sínu um áform um að fækka allt að 2.500 störfum á vöruþróunarsviði og 700 önnur skrifstofustörf í Evrópu. Uppsagnirnar ná að stærstum hluta til starfstöðva Ford í Þýskalandi.

Um 41 þúsund manns starfa í verksmiðju Ford í Cologne, þar af um 3.800 á vöruþróunarsviði.

Talsmaður Ford neitaði að tjá sig um uppsagnirnar og vísaði til tilkynningar félagsins um að aukin áhersla á framleiðslu rafbíla kallaði á endurskipulagningu á rekstrinum. Hann vildi ekki tjá sig frekar um áformin.

Ford tilkynnti í fyrra um 2 milljarða dala fjárfestingu til að auka framleiðslu á rafbílum í verksmiðjunni í Cologne. Bílaframleiðandinn horfir til þess að framleiða sjö ólíkar týpur af rafbílum í Evrópu.

Forstjóri Ford, Jim Farley, varaði við því í nóvember síðastliðnum að framleiðsla rafbíla krefjist 40% færri verkamenn heldur en við framleiðslu á bensín- og díselbílum.