Bílframleiðandinn Ford segist ætla að draga saman seglin í framleiðslu og fresta útgáfu nýrrar týpu af F-150 pallbíl sínum, vegna minnkandi sölu í Bandaríkjunum.

Ford segir að tap verði á rekstri félagsins og að erfitt verði að forðast tap á árinu 2009 líka, samkvæmt frétt Reuters. Hlutabréf Ford féllu um 7% í kjölfar fréttanna.

Samkvæmt frétt Reuters eykur hættan á frekara tapi Ford líkurnar á að félagið muni þurfa að verða sér úti um frekara fjármagn. Árið 2006 varð Ford sér úti um 23,5 milljarða Bandaríkjadala með því að leggja nánast allar eignir sínar að veði, þar á meðal vörumerki sitt, sem tryggingu. Þær aðgerðir áttu að fjármagna breytingar á rekstri félagsins, sem skila nú ekki sínu vegna niðursveiflu bandarísks markaðar.

Ford spá því nú að bílasala í Bandaríkjunum verði á þessu ári á bilinu 14,7-15,2 milljón bílar. Síðasta spá félagsins hljóðaði upp á 15-15,4 milljón bíla. Ford hyggjast minnka framleiðslu sína á þriðja ársfjórðungi um 25% vegna þessa, og á fjórða ársfjórðungi um allt að 14%.