Gengi hlutabréfa bílaframleiðandans Ford hafa lækkað um tæplega 10% það sem af er degi eftir að félagið birti uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs.

Rekstarhagnaður (EBIT) fyrirtækisins á fjórðungnum nam hálfum milljarði dollara og dróst saman um milljarð frá sama tímabili ári áður. Rekstrarhagnaður á árinu 2019 nam 6,4 milljörðum dollara og dróst saman um 600 milljónir milli ára.

Tekjur á fjórða ársfjórðungi námu 39,7 milljörðum dollara og drógust saman um 5% milli ára en tekjur á árinu 2019 námu 155,9 milljörðum og drógust saman um 3% frá fyrra ári.

Í afkomuspá fyrir árið 2020 gera stjórnendur Ford ráð fyrir að rekstrarhagnaður ársins verði á bilinu 5,6-6,6 milljarðar dollara sem var töluvert undir væntingum markaðsaðila og er samkvæmt frétt Reuters helsta ástæðan fyrir lækkun hlutabréfaverðs í dag.