Þrátt fyrir að staða bandarísku bílaframleiðendanna GM og Chrysler hafi ekki verið sérstaklega góð frá bankahruninu 2008 er ekki hægt að segja það sama um keppinautinn Ford. Ford fyrirtækið þáði ekki fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjastjórn í kjölfar hrunsins og hefur nú greint frá því að það muni ráða 2.200 nýja starfsmenn á árinu vegna aukinnar bifreiðasölu í Bandaríkjunum.

Sala Ford-bíla í Bandaríkjunum jókst um 5% í fyrra frá árinu 2010 og seldust alls 2,3 milljónir bifreiða. Ford segist munu ráða verkfræðinga, tölvunarfræðinga og annað skrifstofufólk.

Þá hafa bílaframleiðendurnir Honda og Nissan sagst munu fjölga starfsfólki í Bandaríkjunum. Alls seldust 14,5 milljónir nýrra bíla í Bandaríkjunum í fyrra og spáir Ford því að seldir bílar í ár muni nema á bilinu 15-16 milljónum.