*

mánudagur, 27. september 2021
Erlent 10. september 2021 16:14

Ford hættir framleiðslu á Indlandi

Bílaframleiðandanum hefur illa gengið að skapa sér stöðu á indverskum markaði og hefur tapað 2 milljörðum dala á áratug.

Ritstjórn
Eftir þrjá áratugi á Indlandi er hlutdeild Ford þar aðeins 1,4%.
epa

Ford Motor Co. hefur ákveðið að hætta framleiðslu bíla á Indlandi og verður verksmiðjum bílaframleiðandans í Sanand og Chennai, en Ford hefur tapað meira en 2 milljörðum dala á framleiðslunni undanfarin tíu ár.

Ákvörðunin hefur áhrif á um 4 þúsund störf hjá Ford og er haft eftir forstjóra Ford, Jim Farley, að ákvörðunin hafi verið erfið en nauðsynleg, til að tryggja arðbærni félagsins og stefna að vexti. Samtök indverskra bílasala segja ákvörðunina hafa áhrif á 170 umboðssölur, sem samtals hafa fjárfest yfir 270 milljónum dala í að koma upp Ford-umboðum og hafa samtals um 40.000 starfsmenn á sínum snærum.

Ford hefur, líkt og aðrir vestrænir bílaframleiðendur, átt í erfiðleikum með að skapa sér stöðu á indverska fólksbílamarkaðnum, þar sem litlir og ódýrir fólksbílar sem framleiddir eru af Suzuki og Hyundai á Indlandi eru ráðandi, með um 60% allra seldra nýrra bíla.

Þrátt fyrir að Ford hafi verið á Indlandi í þrjá áratugi var hlutdeild framleiðandans aðeins 1,4%, sem er nokkru minna en samkeppnisaðilarnir Renault, Honda og Nissan státa af, en enginn þeirra nær 3% hlutdeild.