*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Erlent 22. ágúst 2017 18:44

Ford horfir til Kína

Ford hefur hafið samningaviðræður við kínverskan rafbílaframleiðanda um framleiðslu á bílum fyrir Kínamarkað.

Ritstjórn
Jim Hacket, forstjóri Ford.
epa

Bandaríski bílaframleiðandinn Ford, greindi frá því í dag að fyrirtækið eigi í viðræðum við kínverska rafbílaframleiðandann Anhui Zotye Automobile. Samkvæmt frétt BBC snúa viðræðurnar að samstarfi fyrirtækjanna um framleiðslu á rafmangsbílum fyrir Kínamarkað.

Viðræðurnar koma í kjölfarið á því að kínverskir bílaframleiðendur standa frammi fyrir nýjum reglugerðum sem ætlað er að auka sölu á rafbílum í landinu. Nýju reglugerðirnar eru hluti af átaki kínverskra stjórnvalda til að draga úr mengun í landinu. 

Reglugerðirnar gera ráð fyrir því að á næsta ári verði 8% af öllum seldum bílum í landinu rafbílar. Þá er stefnt á að hlutfallið verði hækkað í 12% árið 2020.

Nú þegar eru fleiri rafbílar á götum Kína en í nokkru öðru landi í heiminum. Samkvæmt tilkynningu frá Ford, gerir fyrirtækið ráð fyrir því að árleg sala á rafbílum í landinu muni nema fjórum milljóum árið 2025.

„Rafbílar verða stór hluti af framtíð Kína og Ford vill vera leiðandi í því að bjóða framúrskarandi lausnir til viðskiptavina," sagði Peter Fleet, framkvæmdastjóri Ford í Austur-Asíu.

Samkvæmt talsmanni Ford, vonast fyrirtækið til að ná samningum við Anhui Zotye fyrir lok þessa árs. Þá var einnig greint frá því að fyrirtækið myndi veita frekari upplýsingar um samstarfið þegar skýrari mynd væri kominn á samningaviðræðurnar. 

Árið 2015 greindu forsvarsmenn Ford frá því að fyrirtækið myndi fjárfesta 4,5 milljörðum dollara í þróun og framleiðslu á rafbílum. Á þeim tíma var einnig greint frá því að Ford myndi kynna 13 nýjar tegundir af tvinn- og rafbílum fyrir árið 2020.

Í tilkynningunni frá því í dag kom enn fremur fram að 70% þeirra bíla sem Ford selji í Kína muni ganga fyrir rafmagni fyrir árið 2025.

Stikkorð: Kína Ford Rafbílar Kína