*

laugardagur, 25. september 2021
Erlent 10. janúar 2019 13:22

Ford leggur niður þúsundir starfa

Bílaframleiðandinn Ford hyggst endurskipuleggja Evrópustarfsemi sína og leggja niður þúsundir starfa.

Ritstjórn
Steven Armstrong, framkvæmdastjóri Ford í Evrópu.
epa

Bandaríska bílaframleiðslufyrirtækið Ford hyggur á róttæka endurskipulagningu Evrópskrar starfsemi sinnar, sem búist er við að muni fela í sér niðurlagningu þúsunda starfa. BBC greinir frá.

Steven Armstrong, framkvæmdastjóri Ford í Evrópu, segir að komi til samningslausrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verði forsendur fyrir starfsemi fyrirtækisins þar í landi endurskoðaðar sérstaklega.

Næsta skref bílaframleiðandans eru viðræður við verkalýðsfélög um aðgerðir til að draga úr kostnaði. Meðal þeirra leiða sem til skoðunar eru er að einbeita sér meira að þeim bílum sem skila mestum hagnaði, og hætta starfsemi í þeim mörkuðum sem verst gengur á, auk þess að leggja sérstaka áherslu á raf- og tvinnbílatækni.