Jim Hackett hefur tekið við af Mark Fields sem forstjóri bandaríska bílaframleiðands Ford. Þetta staðfestir orðróm sem fór af stað fyrr í dag um að forstjóraskipti hjá Ford væri yfirvofandi eins og Viðskiptablaðið greindi frá í hádeginu. Gengi hlutabréfa Ford hefur hækkað um 1,7% það sem af er degi.

Í yfirlýsingu sem Ford birti rétt fyrir opnun markaða í Bandaríkjunum er hinum 62 ára Hackett lýst sem breytingastjórnanda með langan og árangursríkan feril af þróun og stjórnun fyrirtækja.

Hackett mun ásamt Bill Ford stjórnarformanni Ford vinna að þremur forgangsmálum í starfsemi fyrirtækisins. Þessi forgangsmál eru að skerpa á framkvæmd í alþjóðlegum rekstri fyrirtækisins, nútímavæða starfsemi Ford og umbreyta fyrirtækinu til mæta áskorunum framtíðarinnar.

Ráðning Hackett er hluti af breytingum í stjórnendahópi Ford en fyrirtækið tilkynnti einnig um ráðningu fjögurra annarra stjórnenda. Breytingarnar koma í kjölfar óánægju hluthafa með gengi félagsins á markaði en gengi Ford féll um tæp 40% á þeim þremur árum sem Mark Fields fráfarandi forstjóri var við stjórnvölinn.