Bandaríski bílaframleiðandinn Ford hefur pantað 12 kæliskápa sem eru nægilega kaldir til að geyma COVID-19 bóluefnið frá Pfizer. Með þessu vill Ford tryggja aðgengi starfsmanna sinna að bóluefninu þegar það mun fara í alþjóðlega dreifingu. Reuters greinir frá.

Ford fetar þar með í fótspor margra opinbera aðila í Bandaríkjunum, á borð við fylki og borgir, sem hafa verið að kaupa kæliskápa sem geta geymt bóluefnið við -70 gráðu kulda. Flest bóluefni þurfa að vera geymd við 2-8 gráður á celsius.

„Við réðumst í þessar aðgerðir til að tryggja það að starfsmenn okkar fái aðgengi að bóluefni eins fljótt og auðið er," er haft eftir Kelli Felker, talskonu Ford í frétt Reuters. Enn er unnið að endanlegri útfærslu þess hvernig Ford mun bera sig að í þessu ferli að sögn hennar.