*

fimmtudagur, 12. desember 2019
Innlent 26. október 2019 17:02

Forða íslenskunni frá stafrænum dauða

Samrómur er vefur sem safnar raddsýnum á íslensku, til að tryggja að hægt verði eiga í samskiptum við tölvur og tæki.

Sveinn Ólafur Melsted
Vefnum var formlega ýtt úr vör á ráðstefnunni Er íslenska góður bisness?

Vefurinn samromur.is hefur verið opnaður, en á honum mun raddsýnum á íslensku verða safnað, til þess að tryggja að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við tölvur og tæki. Vefnum var formlega ýtt úr vör á ráðstefnunni Er íslenska góður bisness?, sem fór fram á dögunum. Inni á vefnum gefst almenningi kostur á að leggja verkefninu lið með því að lesa inn stutt hljóðdæmi. Söfnunin er unnin í samstarfi Almannaróms, Deloitte og nemenda í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Almannarómur er sjálfseignarstofnun um eflingu máltæknilausna fyrir íslensku og vinnur að því að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum. Að Almannarómi standa háskóla- og rannsóknarstofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Í máltækni mætast tölvutækni og tungumál í þeim hagnýta tilgangi að þróa kerfi sem geta unnið með og skilið náttúruleg tungumál. Máltækniáætlun fyrir íslensku hefur meðal annars það markmið að þróa talgreini, talgervil, vélrænar þýðingar og sjálfvirkar villuleiðréttingar fyrir íslensku.

Vilja koma í veg fyrir stafrænan dauða íslenskunnar

„Við fórum af stað í þessa gagnasöfnun vegna þess að gögn á íslensku og um íslensku eru grunnur allra máltæknilausna. Á samromur.is hafa allir tækifæri til að leggja sitt af mörkum og þurfa í rauninni bara að gefa íslenskunni nokkrar mínútur. Upphaflega fór þetta að stað sem annað og smærra verkefni sem átti að ganga út á að kenna vélmenni, sem var þróað af Deloitte í Hollandi, að tala íslensku. Við fengum styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna í sumar fyrir verkefnið og gátum því ráðið fjóra nemendur úr HÍ og HR til þess að vinna að því, undir stjórn verkefnastjóra frá HR. Hópurinn komst að því mjög fljótlega að hann vantaði gögn og þ.a.l. þróaðist verkefnið út í að safna röddum. Verkefnið hefur verið í gangi í allt sumar og nemendurnir staðið sig frábærlega.

Þetta hefur farið mjög vel af stað og við þurftum að hækka markmiðið strax á fyrsta sólarhringnum. Við höfðum stefnt að því að safna 3.000 setningum á sólarhring en hækkuðum markmiðið fljótlega. Við stefnum á að vera búin að ná að safna nægilega mörgum raddsýnum í febrúar á næsta ári af fullorðinsröddum, en fólk mun þó áfram geta lesið inn því við þurfum alltaf gögn. Næsta mál á dagskrá er svo að finna út úr því með hvaða útfærslu við söfnum röddum barna og unglinga," segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms.

Að sögn Jóhönnu er meginmarkmið verkefnisins að koma í veg fyrir stafrænan dauða íslenskunnar.

„Eitt af því sem skilgreinir okkur sem þjóð er tungumálið. Þá er megnið af okkar menningararfi að auki geymt í tungumálinu, eins og Vigdís Finnbogadóttir sagði þá eru orðin okkar kastalar."

Jóhanna bendir jafnframt á að rannsóknir á kauphegðun sýni að fólk versli frekar á sínu móðurmáli heldur en á erlendu tungumáli. Þetta sé mikilvægur þáttur fyrir atvinnulífið að hafa á bakvið eyrað. „Það að hafa þjónustu ekki í boði á móðurmáli fólks er stór aðgangshindrun fyrir fólk almennt og ekki síst þá sem búa við einhvers konar skerðingar, svo sem sjónskerta," segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér