Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands fordæma ákvörðun kjararáðs um launahækkanir þingmanna og ráðherra í nýrri ályktun. Samtökin segja ákvörðunina ekki vera í neinu samhengi við almenna þróun á vinnumarkaði, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma.

Standi ákvörðunin er vinnumarkaðurinn settur í fullkomið uppnám með tilheyrandi tjóni fyrir almenning og atvinnulíf. SA og Viðskiptaráð skora því á nýtt Alþingi að hafna ákvörðuninni og leggja málið í sáttarferli.

Með sáttarferli eiga samtökin við úrskurði um þingfararkaup og laun ráðherra sem og nýlega úrskurði um ríflegar hækkanir á launum embættismanna. Að öðrum kosti er borin von að aðilar vinnumarkaðarins geti haldið áfram vegferð sinni um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð.

Stærsta viðfangsefni næsta kjörtímabils

Samtökin segja umbætur á vinnumarkaði vera stærsta verkefni sem ný ríkisstjórn muni standa frammi fyrir. Takist stjórnvöldum ekki að uppfylla forsendur Salek-samkomulagsins munu kjaradeilur raska efnahagslegu jafnvægi og standa í vegi fyrir öðrum mikilvægum uppbyggingarverkefnum.

Viðskiptaráð og SA segja í tilkynningunni nýlegar ákvarðanir kjararáðs einnig vera í fullkomni andstöðu við þá stefnumörkun sem stjórnvöld hafa sett sér undanfarið, stefnumörkun sem hefur leitt til lífskjarabata sem á sér fá fordæmi.

Launahækkanir langt umfram aðra hópa

Í tilkynningunni benda samtökin einnig á þá augljósu staðreynd að launahækkanirnar sem kjararáð hefur lagt fyrir séu ekki í neinum tengslum við almennar hækkanir á vinnumarkaði.

Ráðið hefur í raun ákveðið 75% hækkun á þingfararkaupi frá nóvember 2013 og að viðbættum almennum launahækkunum á árunum 2017 og 2018 nemur hækkunin 88%.

Til samanburðar hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 28% frá nóvember 2013 til hausts 2016 og gætir þar mikilla hækkana lægstu launataxta á árinu 2015. Stjórnendur á almennum vinnumarkaði hafa hækkað um 22% á umræddu tímabili samkvæmt tilkynningunni.