*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 3. október 2014 18:24

Fordæma lítilsvirðingu ríkisstjórnarinnar

Stjórn Verslunarmannafélags Suðurlands segir ríkisstjórnina sýna fátæku fólki lítilsvirðingu.

Jóhannes Stefánsson
Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er sökuð um lítilsvirðingu af Verslunarmannafélagi Suðurlands.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Verslunarmannafélags Suðurlands segir ríkisstjórn Sjálfstæðis og Framsóknarflokks sýna lægst launaða fólki landsins lítilsvirðingu með fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Stjórn félagsins telur frumvarpið endurspegla forgangsröðun sem sé ekki í þágu tekjulágra og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu sem var samþykkt á fundi þess í dag.

Er það einkum vegna sex atriða sem eru talin upp í ályktun stjórnarinnar.

1. Skerðing framlaga, til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna.
2. Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts.
3. Að ekki er staðið við framlög til VIRK starfsendurhæfingasjóðs.
4. Aukin greiðsluþátttaka sjúklinga í læknis- og lyfjakostnaði.
5. Skerðing framlaga til menntamála. 
6. Stytting tíma til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Rangt að frumvarpið auki ráðstöfunartekjur

„Við erum að lýsa vanþóknun okkar á því sem snýr að okkar lægst launaða fólki. Það er það sem við erum að gera með þessari yfirlýsingu. Ef ekki verður breyting á hefur hún miklu meira að segja heldur en einhver örfá prósent í launahækkun," segir Gils Einarsson, formaður stjórnar Verslunarmannafélags Suðurlands.

Aðspurður hvort stjórn félagsins telji útreikninga ríkisstjórnar og Viðskiptaráðs Íslands um að fjárlagafrumvarpið muni auka ráðstöfunartekjur tekjulægsta fjórðungs mest rangar, segir Gils svo vera. „Það er náttúrulega algjörlega ljóst miðað við okkar útreikninga að það er fjarri lagi. Þetta kannski jafnar sig upp á heildina litið en það á ekki við um okkar lægst launaða fólk. Það er fyrir mestu í okkar huga," segir Gils.

Hann segir það afstöðu stjórnarinnar að ekki verði gengið til kjarasamninga fyrr en búið sé að setjast niður með verkalýðshreyfingum og ræða fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár. „Ég vil koma þeim skilaboðum áleiðis að þeir fari að tala við okkur um þessi fjárlög því það verður ekkert gengið til samninga fyrr en það hefur verið gert. Við erum að slá skjaldborg um þá sem eru lægst launaðir og þá sem eru sjúkir," segir Gils Einarsson.