*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 17. apríl 2021 12:49

Fordæmalaus hækkun flutningskostnaðar

Dregið var úr afkastagetu flutningskerfisins í upphafi faraldurs en eftirspurn dróst mun minna saman en vænst var.

Andrea Sigurðardóttir
Maresk er stærsta skipafélag í heimi.
EPA

Þegar kórónuveiran tók að dreifa sér um heimsbyggðina og alvarleiki stöðunnar á heimsvísu blasti við, óttuðust fyrirtæki víða um heim að stórkostlegur samdráttur í flutningamagni væri í vændum.

Leiguskipum var skilað til eigenda, gámar voru afpantaðir, svokallað „blank sailing" tók kipp - þar sem fjöldi skipa lá við akkeri á siglingaleiðum - og mikil aukning varð í niðurrifum skipa í júní og júlí.

Samkvæmt BIMCO, alþjóðasamtökum skipafélaga, fóru skip sem samanlagt telja yfir 100 þúsund gámaeiningar (TEUs) í niðurrif í júní og júlí, samanborið við innan við 20 þúsund gámaeiningar á sama tímabili ári fyrr. Þrátt fyrir samdrátt í niðurrifi á vormánuðum, vegna útgöngubanns víða um heim, jókst niðurrif um 26,3% milli ára á fyrstu sjö mánuðum ársins 2020.

Samdráttur eftirspurnar ofmetinn

Eftir því sem leið á árið kom í ljós að samdrátturinn reyndist mun minni en óttast var í upphafi faraldurs. Samsetning varnings breyttist jafnframt með breyttu neyslumynstri þar sem meira var pantað af vörum sem ekki passa í staðlaðar gámaeiningar.

Þannig fækkaði ekki aðeins þeim skipum sem sigla, heldur minnkaði nýting þeirra einnig. Afkastageta flutningskerfisins dróst þannig mun meira saman en eftirspurn. Þetta leiddi til þess að eftirspurn eftir skipum jókst gríðarlega og dagleigugjald skipa hækkaði verulega. Þetta hafði áhrif á fjölmörg flutningafyrirtæki, enda algengt að þær leigi stóran hluta flota síns - líkt og tíðkast hjá flugfélögum.

Þessu til viðbótar hófu Kínverjar að skima varning sem kom inn í landið fyrir kórónuveirunni. Ef veira fannst voru gámarnir sendir í einangrun, óháð því hve lengi þeir höfðu staðið ósnertir um borð í skipunum. Þessar aðgerðir lengdu hringferðartíma gáma til muna, sem gerði það að verkum að gámaskortur bættist ofan á færri skip með lægra nýtingarhlutfall.

Kostnaður við sjófrakt marfaldast

Þannig hófst spírallinn síðasta haust, sem hefur leitt af sér fordæmalausar hækkanir á flutningskostnaði - og þar með stuðlað að hækkunum á verði ýmissa hrávara.

Samkvæmt alþjóðlegri gámavísitölu ráðgjafarfyrirtækisins Drewry, sem sérhæfir sig í sjóflutningum, var kostnaður við sjófrakt á hefðbundnum gámi frá Shanghai til Rotterdam almennt um 2.300 Bandaríkjadalir í upphafi síðasta árs, en um 8.900 dollarar í upphafi þessa árs. Það er hátt í þreföldun á milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér