Lækkun ríkisskulda undanfarin fjögur ár á sér engin fordæmi í hagsögu Íslands þrátt fyrir að skuldsetning ríkissjóðs sé enn nokkuð há í sögulegu samhengi. Frá árinu 2011 hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um hartnær 500 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag, eða úr 86,6% af vergri landsframleiðslu niður í 51%.

Skuldir ríkissjóðs í júní námu 1.216 ma.kr samkvæmt tölum frá Lánamálum ríkisins og hafa þær ekki verið lægri frá árinu 2007. Frá því að íslensku krónunni var breytt í „nýkrónu“ með því að fjarlægja tvö núll af verðgildi hennar árið 1981 hafa skuldir ríkisins aldrei verið lægri en þær voru árið 2005. Þá voru skuldir ríkissjóðs einvörðungu 18,5% af landsframleiðslu og héldust lágar fram að hruni áður en þær skutust upp í 60,3% í árslok 2008. Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor við Háskólann í Reykjavík, segir litla skuldsetningu ríkissjóðs fyrir hrun hafa verið gulls ígildi.

„Það má segja að það hafi að vissu leyti bjargað okkur í hruninu að ríkissjóður var mjög lítið skuldsettur þegar við fórum inn í það. Það gerði það að verkum að það var hægt að taka dýfuna og komast í gegnum hana án þess að ríkið lenti í greiðslufalli. Það var auðvitað gríðarlega mikilvægt að halda greiðsluhæfi ríkissjóðs, lánshæfiseinkunnum og öðru slíku,“ segir Friðrik.

Lækkun ríkisskulda undanfarin ár þýðir fyrst og fremst að ríkið sparar sér tugi milljarða króna árlega í vaxtagreiðslur og hægt er að nota þá fjármuni í aðra og mikilvægari hluti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .