Evrópska kerfisáhætturáðið (ESRB) hefur gefið út viðvörun um aukna áhættu í fjármálakerfi Evrópu sem gæti ógnað fjármálastöðugleika. Um er að ræða fyrstu almennu viðvörun (e. general warning) kerfisáhætturáðsins frá því að því var komið á fót árið 2010 í kjölfar evrópsku skuldakreppunar, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Ráðið, sem komst að þessari niðurstöðu á fundi fyrir viku síðan, bendir á þrjá „alvarlega“ þætti sem auki kerfisáhættu í fjármálakerfinu.

Í fyrsta lagi hefðu versnandi horfur í hagkerfi álfunnar og þrenging lánþegaskilyrða í för með aukinn þrýsting á eigna- og skuldastöðu (e. balance sheet stress) hjá fyrirtækjum og heimilum, sérstaklega í geirum og hjá aðildarríkjum sem hafa orðið fyrir mestum orkuverðshækkunum.

Í öðru lagi nefnir ráðið áhættu vegna lækkandi eignaverðs sem geti leitt til mikils taps hjá aðilum sem færa eignir á markaðsvirði með tilheyrandi sveiflum á markaði og lausafjárvandræðum. Þá hafi miklar sveiflur og verðhækkanir á orku- og hrávöruverði leitt til töluverðra veðkalla hjá markaðsaðilum.

Í þriðja lagi hafi versnandi efnahagshorfur haft neikvæð áhrif á eignagæði og vænta arðsemi lánastofnana. Þó evrópski bankageirinn sé almennt vel fjármagnaður, þá sé áhætta fólgin í versnandi efnahagshorfum á meðan ákveðanar lánastofnanar eru enn að vinna úr Covid-tengdum vandamálum í lánasöfnum sínum.

Ráðið hvetur því til þess að viðbúnaður í fjármálakerfinu verði tryggður eða aukinn þannig að það geti áfram stutt við heimili og fyrirtæki ef áhættan raungerist. Fjármálafyrirtæki eru hvött til þess að treysta viðnámsþrótt sinn með því að viðhalda nægu eigin fé.

„Tilefni viðvörunarinnar eru þær afleiðingar sem stríðið í Úkraínu, nýleg veirufarsótt og tengdir þættir hafa haft á efnahagshorfur í álfunni,“ segir í frétt á vef Seðlabanka Íslands.

„Þrálát verðbólga og þrengra aðgengi að fjármálamörkuðum gætu ef allt fer á versta veg haft þau áhrif á fjármálakerfið að stöðugleika verði ógnað.“