Sagnfræðiprófessorinn Þór Whitehead segir það fordæmalaust í stjórnmálasögu Evrópu ef niðurstaða stjórnarmyndunarviðræðanna milli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna verði sú að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra.

„[E]nginn formaður hægriflokks, miðflokks eða jafnaðarmannaflokks, sem nyti mesta kjörfylgis í vestrænu landi, myndi sætta sig við ríkisstjórnarforystu muni minni flokks, sem kenndi sig við vinstri róttækni,“ segir Þór í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

„Það ætti að vera fylgismönnum Sjálfstæðisflokksins til umhugsunar um, hvað formanninum og þingflokknum gangi til með ósíngirni sinni og hvaða áhrif hún geti haft á stöðu flokksins í framtíðinni.“

Gagnrýnir að ekki sé fundað með almennum flokksmönnum

Í greininni gagnrýnir Þór, sem er meðlimur Sjálfstæðisflokksins, að forysta flokksins hafi ekki fundað með almennum flokksmönnum um stjórnarmyndunarviðræðurnar. Telur hann að þó að almenn sátt sé um viðræðurnar sem slíkar meðal flokksmanna.

„Hvort flokkurinn eigi, þvert á úrslit alþingiskosninga, að gangast undir stjórnarforystu vinstri grænna er annað og með öllu órætt mál meðal flokksmanna,“ segir Þór, sem segir þetta skipta máli jafnvel þó völ sé á jafngeðþekku forsætisráðherraefni og Katrín sé.

„Hvernig endar vegferð, sem hefst með því að ræða ekki við það fólk, sem veitti flokknum sigur í því einvígi, er fram fór í síðasta mánuði á milli hans og VG um forystuhlutverk í stjórnmálum landsins?“

Forystan ætti að þræða bilið milli skörpustu andstæðnanna

Þór er mjög gagnrýninn á þá sem hann kallar flokkseigendur Sjálfstæðisflokksins og að jafnvel sé talað um að fjölga ráðherrum á sama tíma og flokkurinn mótmæli fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík. „Í raun sjá þingmenn sér í hag að gengi formannsins hafi fallið, því þá stækkar ráðherrakvóti þeirra,“ segir Þór og vitnar í tal um að Sjálfstæðisflokkurinn fái fleiri ráðherrastóla fyrir að gefa eftir forsætisráðuneytið, og segir hann söguna endurtaka sig.

„Árið 1983 hafði Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, misst þingsæti sitt og tök sín á flokknum, en þráaðist við að segja af sér. Hann gaf sjálfstæðisþingmönnum kost á að velja á milli þess að flokkurinn fengi forsætisráðuneytið og fjóra ráðherrastóla að auki eða léti Framsókn eftir forsætið og fengi þá sex ráðherrastóla. Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna kaus síðari kostinn.

Segir Þór einnig að við þær aðstæður að forystumenn samstarfsflokkanna geti ekki sætt sig við formann Sjálfstæðisflokksins í forsætisráðherrastólinn reyndu menn oftast að þræða bilið milli skörpustu andstæðnanna. Má velta fyrir sér að með þeim orðum vísi hann í að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins ætti að verða forsætisráðherra.