Fordæmi eru fyrir því í dómskerfinu að ábyrgðarmenn lána eru ekki ábyrgir þar sem ekki fór fram greiðslumat á lántakenda. Samkomulag sem kvað meðal annars á um að fjármálastofnun sé skylt að greiðslumeta lántakenda í öllum tilvikum. Samkomulagið tók gildi árið 2008 og féll ekki úr gildi fyrr en árið 2009. Áður var skyldan eingöngu til staðar ef höfuðstóll láns var hærri en ein milljón króna.

Samningurinn féll úr gildi með gildistöku laga um ábyrgðarmenn. Þau kveða á um greiðslumat skuldara og um upplýsingagjöf til ábryrgðarmanns fyrirr gerð samnings. Skylt er að greiðslumeta lántaka í öllum tilvikum.

Neytendastofa fjallar um samkomulagið í dag en undanfarið hefur verið fjallað nokkuð um málið í fjölmiðlum. Í fréttum Stöðvar 2 fyrir helgi var sagt frá ábyrgðarmanni láns sem lánveitandi hætti við að innheimta eftir að bent var á samkomulagið.

Breytir stöðu ábyrgðarmanns

Í grein á vef Neytendastofu eru rakin nokkur dæmi þar sem þetta tiltekna atriði, þ.e. skylda til greiðslumats, hefur komið til meðferðar úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og dómstóla.

Kemur fram að í máli frá árinu 2008 var sjálfskuldarábyrgð einstaklings á veðskuldabréfi að upphæð 2,3 milljónum króna úrskurðar ógild þar sem láðst hafi að greiðslumeta skuldara. Því er ljóst að til eru fordæmi fyrir því að ábyrgðarmaður er ekki ábyrgður vegna ákvæðisins. Neytendastofa tekur fram að samkomulagið hefur ekki lagagildi sem slíkt en hefur verið byggt á því samhliða 36. Grein samningalaga. Greinin kveður á um að að samning megi víkja til hliðar að heild eða að hluta ef talið er ósanngjarnt eða andsætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.

„Vert er einnig að benda á að þó ábyrgð sé dæmd eða úrskurðuð ógild er ekki þar með sagt að skuldin sé úr sögunni, heldur er einfaldlega um það að ræða að ekki er hægt að ganga að þeim ábyrgðarmanni sem um ræðir,“ segir í grein Neytendastofu.

„Enn fremur gildir samkomulagið, og nú lögin, bara um ábyrgðir (þ.e. persónulegar ábyrgðir og þegar ábyrgðarmaður setur eign sína að veði til tryggingar skuldum annars aðila), en ekki þegar fólk tekur sjálft lán til hagsbóta fyrir aðra, eins og t.a.m foreldrar ungs fólks sem er að kaupa sína fyrstu fasteign hafa gert í einhverjum mæli, enda er þá ekki um ábyrgð að ræða. Þá er einnig rétt að minna á að ekki var skylt að greiðslumeta vegna lána sem tekin voru fyrir 4. apríl 2009 þegar lántaki var fyrirtæki, enda samkomulagið bara um ábyrgð á skuldum einstaklinga. Því miður virðist þó hafa verið nokkuð algengt síðustu ár að einstaklingar hafi gengist í ábyrgðir fyrir fyrirtæki.“

Óljóst fordæmisgildi

Árið 2006 klofnaði úrskurðanefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki í máli er snéri að ábyrgð ábyrgðarmanns. Þá gekkst aðili A í ábyrgð fyrir einstakling B og fyrirtækið C. Ekkert greiðslumat fór fram í tengslum við ábyrgðina, en í grein Neytendastofu segir að málið sé eitt athyglisverðasta varðandi ábyrgðir.

Svo fór að B og C gátu ekki staðið við skuldbindingar og tók A því lán til að greiða upp ábyrgðarskuldbindingar sínar. „Var A því í raun orðin skuldari sjálf en ekki ábyrgðarmaður. A krafðist þess sìðar að fá kröfu samkvæmt umræddum lánssamningi fellda niður þar sem aldrei hefði verið gert greiðslumat.“

Í niðurstöðukafla álitsins segir meðal annars að sóknarliði hafi þegar greitt ábyrgðarskuld sína og henni verður því ekki vikið til hliðar. Það komi þó ekki í veg fyrir að sóknaraðili geti haft uppi endurkröfu vegna greiðslu ábyrgðarskuldarinnar.

Meirihluti nefndarinnar komst því að þeirri niðurstöðu að krafan, að því sem leyti sem hún var komin til vegna ábyrgðar á skuldum einstaklings, skyldi falla niður. „Verður að telja það eðlilega niðurstöðu enda um mikinn aðstöðumun aðila að ræða og ljóst að umrætt lán var einungis tekið í þeim tilgangi að greiða ábyrgðarskuldbindingu, sem ekki var staðið rétt að ì upphafi. Minnihluti nefndarinnar komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu m.a. á grundvelli þess að A hefði greitt upp ábyrgðarskuldbindingar sìnar án nokkurs fyrirvara. Þar sem nefndin klofnaði í þessu máli er óljóst hvaða fordæmisgildi niðurstaða meirihlutans hefur.“

Mismunandi niðurstaða Hæstaréttar

Tveir dómar Hæstaréttar eru raknir þar sem niðurstaðan var mismunandi. Árið 2005 var ábyrgð vikið til hliðar og fjárnám fellt úr gildi, en greiðslumat á skuldara hafði ekki farið fram né hafði ábyrgðarmaður verið upplýstur um slæma fjárhagsstöðu skuldara.

Árið 2010 komst dómurinn að gagnstæðri niðurstöðu, „þrátt fyrir að verklagi bankans hefði í ýmsu verið abótavant n m.a. fór ekki fram greiðslumat á skuldara. Í því máli virðist að nokkru byggt á því að ábyrgðarmaður væri menntaður viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali, og ætti því að vera ljós sú áhætta sem ábyrgðinni fylgdi. Þessi röksemdafærsla er ekki hafin yfir gagnrýni enda fremur skrìtið ef fjármálafyrirtæki, sem hljóta alltaf að vera sterkari aðilinn ì málum þar sem einstaklingar gangast ì ábyrgð fyrir aðra einstaklinga, teljast laus undan skyldum sínum á grundvelli þess að viðkomandi einstaklingur viti eitthvað um fjármálagerninga.“